Frá Látrum í Aðalvík um Tunguheiði og Kjöl að Atlastöðum í Fljóti.
Greiðfær leið.
Í Árbók FÍ 1994 segir: “Farið er … upp allbrattan hjalla, sem Fljótshjalli heitir og liggur ævinlega í honum skafl. Þá tekur heiðin við og Andbrekkur og Kjölbrekka uns komið er á Kjöl. Óljós gata liggur upp á heiðina … Fljótlega þegar komið er á fannir er fylgt vörðum, sem verða því reistari sem ofar dregur og vísa veg uns hallar norður af. Leiðin uppá heiðina liggur af hjalla á hjalla um veðurgnúin grjótholt … Greiðfært er þar yfirferðar, en á fótinn yfir urðir og mosatór á milli. … Gengið er niður Kjölbrekku og Rangala, þar sem gatan liggur sniðskorin hjá jöklasóley, hlaðin undir fót af mannahöndum úr flögugrjótinu úr hlíðinni. Farið er ofan Hærrihaus og Lægrihaus og niður í Langholt og þá um Mógrafir og að Tungu.”
Förum frá Látrum til norðausturs austur fyrir Grasdalsfjall og áfram norðaustur og um Grafahlíð upp á Hálsa og síðan Fljótshjalla. Næst förum við norðnorðaustur Fjárdal upp á Kjöl á Tunguheiði í 500 metra hæð. Frá Látrum að Kili er leiðin vörðuð. Síðan austur á Nónfell, um Kjölbrekku og Rangala norður efstu brekkurnar og síðan norðaustur og niður að Tungu í Fljóti. Áfram norðaustur um Fljót og yfir breiðan en grunnan Atlastaðaós að Atlastöðum.
9,5 km
Vestfirðir
Skálar:
Látrar: N66 23.555 W23 02.200.
Fljótavík: N66 27.128 W22 55.558.
Nálægar leiðir: Aðalvík, Mannfjall, Almenningar, Háaheiði, Fljótsskarð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort