Kjósendur bíða átekta.

Greinar

Þingmenn og aðrir forustumenn hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka hafa ekki náð sér eftir niðurstöðu skoðanakönnunar DV í gær, þar sem kom í ljós, að ríflegur meirihluti þjóðarinnar vildi ekkert hafa saman við þá að sælda.

Verst er áfall forustusveitar Alþýðuflokksins. Hún sér nú fram á, að Vilmundur Gylfason kunni að geta þurrkað hana út af þingi og setzt þar í staðinn með sína sveit sem einn af stóru stjórnmálaflokkum landsins.

En þeir gráta of seint, er nú fyrst átta sig á, að þeir hafa síðan 1978 ranglega ímyndað sér, að þeir ættu aðild að sigrum Vilmundar og gætu leyft sér að ýta honum til hliðar sem sérvitringi, þegar þeir væru búnir að nota hann.

Skoðanakönnunin var einnig mikið áfall lausafylgisflokksins mikla, Sjálfstæðisflokksins. Þar geta menn auðveldlega séð af tölunum, að tveir þriðju hlutar Vilmundarfylgisins koma beint úr röðum sjálfstæðiskjósenda.

Þótt prófkjör flokksins hafi sums staðar megnað að plástra yfir helzta klofninginn í honum, svo að hann býður þar fram í einu lagi, þá hafa þau ekki dugað til að halda utan um lausafylgið, er jafnan svífur umhverfis hann.

Áfallið er um leið flokkanna allra. Skoðanakönnunin bendir til, að fjögurra flokka kerfið sé að riðlast, því að Vilmundur tekur sitt fylgi frá flokkunum, en ekki þeim helmingi kjósenda, sem er fráhverfur flokkunum.

Þessi helmingur, sem er óbreyttur frá síðustu könnunum, stafar ekki af göllum í könnununum sjálfum, svo sem sést af því, að verulegur hluti þessa fólks getur tekið afstöðu til ríkisstjórnarinnar og annarra pólitískra mála.

Þessi helmingur kjósenda, er gefur stjórnmálaflokkunum öllum langt nef og hefur ekki einu sinni sætt sig við framboð Vilmundarbandalagsins, mun ráða úrslitum í alþingiskosningunum, sem verða 23. apríl í vor.

Hugsanlegt er, að Vilmundarbylgjan magnist og sogi til sín fylgi úr þessum hópi. Þá er ekki síður líklegt, að framboð svonefndra Gunnarsmanna, ef af verður, muni skjóta nokkurri sveit þingmanna inn í húsið við Austurvöll.

Ofan á allan þennan flokkaharm bætast fréttir af kvennaframboði í Reykjavík og hugsanlega einnig víðar. Reynslan frá byggðakosningunum í fyrra bendir til, að slíkt framboð verði ekki í vandræðum með að ná mönnum inn á þing.

Þessi mikli og óútreiknanlegi vandi steðjar að sextíu manna þingliði, sem er svo illa á sig komið, að heyrst hafa rök fyrir því, að einungis einn tíundi þeirra eigi nokkurt erindi fyrir þjóðina inn á þing í annað sinn.

Og þessum um það bil sex núverandi þingmönnum, sem hægt er að treysta til góðra verka, mun fækka um 17% við þá staðreynd eina, að Guðmundur G. Þórarinsson er ekki lengur í framboði. Þannig getur lengi vont versnað.

Ef einhverjir stjórnmálamenn hafa í rauninni áhuga á að skilja, hvers vegna þjóðin er að snúast gegn þeim, ættu þeir að setjast niður og lesa í einum rykk fréttirnar af grátbroslegum störfum þeirra á þingi í vetur.

Síðan ættu þeir að láta spila fyrir sig svo sem tíu sinnum myndbandið af kvöldfundinum með atkvæðagreiðslunni um bráðabirgðalögin, svo að inn síist sú grimma staðreynd, að fólk vill ekki, að alþingi sé málfundur í leikaraskóla.

Jónas Kristjánsson

DV