Klapp á bak – tog í háls

Punktar

Bandarískir fjölmiðlar eru í dag uppteknir af smáatriðum í kveðjum, sem George W. Bush kastar á erlenda ráðamenn á G8 fundi auðríkjanna í Evian í Frakklandi. Um þetta má sjá dæmi í New York Times og Washington Post. Lagt er út mismunandi handabandi, þar Blair fékk skólaklúbbskveðju, Koizumi klapp á bakið og Berlusconi tog í hálsinn, en óvinirnir (“Þeir sem eru ekki með mér eru á móti mér”) Chirac, Chrétien og Pútín fengu bara mismunandi hlýtt handtak, Pútín hlýjast. Beðið var í ofvæni eftir, hvernig kveðju Schröder fær, þegar hann kemur. Kannski fær hann ekki einu sinni hlýtt handtak. Svo ætlar Bush að flýja, áður en kemur að vinnufundum landsfeðranna og þá ætlar Chirac að skilja eftir auðan stól fyrir hann. Allt flokkast þetta undir diplómatíu að hætti Séð og heyrt.