Klerkar ritskoða mig

Fjölmiðlun

Hef verið þögull á fésbók og tísti í tvær vikur. Var á ferð um Íran, þar sem skrúfað er fyrir þessa miðla. Þurfti að fara á góð netkaffihús til að krókast kringum það. Nennti því ekki, sætti mig við að vera ritskoðaður svona. Í Íran ráða klerkar öllu. Vasast í ríkisrekstri, loka fésbók og tísti, ritskoða allt efni, frá boðskortum yfir í kvikmyndir. Strika út frambjóðendur að vild. Taka lítið mark á ákvörðunum þings og forseta. Þær stöðvast hjá erkiklerkinum mikla, sem veit allt betur um, hvað sé heppilegast fyrir lýðinn. Forskrifar jafnvel, að trúhneigður Saadi sé betra skáld en veraldlegur Omar, er orti um víf og vín.