Í fagurprentuðum áróðursbæklingum frambjóðenda Samfylkingar jafnaðarmanna í Reykjaneskjördæmi má sjá sömu nöfn meðmælenda með ýmsum frambjóðendum í ýmsum flokkum. Það er eins og eina og sama vottunarstofan sé að gæðastimpla margs konar vöru.
Í flokksbundnu prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík fyrir skömmu var smalað nokkur hundruð manns, sem annað hvort voru utan flokka eða í öðrum stjórnmálaflokkum. Menn virtust ekki hafa neinar áhyggjur af að vera í mörgum flokkum samtímis.
Í prófkjöri Samfylkingarinnar á Norðurlandi vestra ætla að fjölmenna framsóknarmenn úr Vestur-Húnabyggð til ná því fram, sem þeim mistókst innan eigin flokks, að ná frambjóðanda úr sveitarfélaginu í öruggt sæti á framboðslista í kosningunum í vor.
Smölun af slíku tagi er gamalkunn hér á landi. Félagsmönnum íþróttafélaga er smalað á prófkjörstað til að styðja einhvern, sem er í félaginu eða talinn hlynntur því. Í kosningunum sjálfum nýtast þessi atkvæði ekki, því að þau eru einnota fyrirbæri í prófkjörsslag.
Með stækkun kjördæma hefur svæðisbundin smölun í prófkjörum orðið algengasta og fyrirferðarmesta greinin á þessum meiði. Menn sameinast þá þversum gegnum flokka til að styðja frambjóðendur, sem eru af svæðinu eða taldir fulltrúar þess af öðrum ástæðum.
Í mörgum þessarar tilvika eru menn að styðja einhvern í prófkjöri, sem þeir ætla alls ekki að styðja í kosningum. Þeir hafa óeðlileg afskipti af skipun framboðslista, sem þeir hafa ekki í hyggju að kjósa. Þeir eru haldnir hreinum og klárum siðferðisbresti.
Annað einkenni þessa klifurs yfir girðingar er, að stjórnmálaflokkar eru almennt ekki hjartkær fyrirbæri í hugum fólks. Menn skipta um þá eins og föt, ef það þjónar öðrum hagsmunum. Menn geta jafnvel hugsað sér að vera í öllum stjórnmálaflokkunum samtímis.
Sumpart stafar þetta af kunningskap við einstaklinga, en oftar þó af hagsmunum. Sumir telja henta sér persónulega að hafa gott veður á ýmsum stöðum í pólitíkinni, af því að íslenzka kerfið er enn svo frumstætt og valdaþjappað, að pólitísk sambönd skipta miklu.
Oftar er þó um svæðisbundna hagsmuni að ræða. Menn líta á pólitískt kjörna fulltrúa sem tæki til að skaffa peninga, í flugvöll, höfn, veg, álver, varnargarð, kvóta, niðurgreiðslu, menningarhús og svo framvegis. Sveitarfélag án þingmanns er sigrað sveitarfélag.
Þessi svæðisbundna spilling stafar af sömu forsendu og persónulega spillingin. Kjósendur telja, að stjórnmál snúist um aðgang að jötunni, en ekki um framfarir og framgang þjóðarinnar. Þeir hafa rétt fyrir sér, af því að íslenzka kerfið er frumstætt og valdaþjappað.
Það er alþjóðlega viðurkennd hagfræði, að pólitísk spilling skaðar þjóðir efnahagslega. Hún beinir straumum fjármagns og fyrirhafnar úr eðlilegum farvegum. Þess vegna er reynt á Vesturlöndum að opna þjóðfélög, svo að straumar geti runnið eðlilega.
Ísland er svo afskekkt land, að stjórnmálamenn hafa talið sér kleift að stinga við fótum og reyna að varðveita ýmiss konar hindranir og skömmtun, sem freista manna. Þess vegna telja svona margir kjósendur á Íslandi, að stjórnmál snúist um aðgang að jötunni.
Stuðningur fólks við prófkjörsframbjóðanda, sem þeir ætla síðan ekki að styðja sem kosningaframbjóðanda, er einfalt dæmi um frumstætt og siðlítið þjóðfélag.
Jónas Kristjánsson
DV