Klikkaðir kjósendur

Greinar

Flest bendir til, að George W. Bush verði Bandaríkjaforseti í fjögur ár í viðbót, þrátt fyrir skelfilega reynslu af árunum fjórum, sem liðin er. Í kosningunum eftir hálfan annan mánuð hyggst helmingur kjósenda veita fylgi sitt versta forseta, sem verið hefur í Bandaríkjunum í áratugi.

Við skulum láta liggja milli hluta, að Bush er að eyðileggja límið í bandarísku þjóðfélagi með markvissum aðgerðum til að gera þá ofsaríku enn ofsaríkari, millistéttirnar fátækari og ýta undirstéttinni út af borðinu. Ef þetta er það, sem bandarískar millistéttir vilja, þá verði þeim að verðleikum.

Við skulum láta liggja milli hluta, að með geigvænlegri skuldasöfnun en Bush að gera Bandaríkin að þræli stjórnvalda í Kína. Þegar þau innkalla dollarana sína, verða Bandaríkin að gera eins og Kínastjórn vill. Bandaríski uppgangurinn hefur verið greiddur með kaupum Kína á fallandi dollurum.

Við skulum heldur líta á þær ógnir, sem Bush hefur fært umheiminum, þar á meðal Íslandi, sem hefur stutt hann með ráðum og dáð, eitt sárafárra Evrópuríkja. Alvarlegast er markvisst afnám fyrri aðgerða til varnar umhverfi mannkyns, allt frá Kyoto-bókuninni til verndunar náttúrusvæða.

Bush hefur gert heiminn ótryggari fyrir hryðjuverkum. Þau eru eins og fíkniefnin, verða ekki sigruð í stríði. Enda blómstra Osama bin Laden og al Kaída, fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Enda eyða Bandaríkin nánast öllu fé sínu og allri orku í skelfilegt stríð gegn almenningi í Írak.

Bush er orðinn hataðri í Írak en Saddam Hussein var á sínum tíma. Enda drepur Bush fleiri óbreytta borgara þar á hvern klukkutíma en Saddam Hussein gerði á sínum tíma. Stóraukið ofbeldi örvinglaðs Bandaríkjahers í borgum Íraks hefur skilað öfugum árangri, hert þjóðina í hatri á hernáminu.

Bush er arftaki krossfaranna, sem sáðu ógn og skelfingu í Miðausturlöndum fyrir þúsund árum. Vesöl stuðningsríki Bandaríkjanna, einkum fámenn eyríki á borð við Ísland, geta þurft að súpa seyðið af stórauknu hatri almennings í Miðausturlöndum vegna stríðanna gegn Írak og Palestínu.

Hálf bandaríska þjóðin er svo skyni skroppin, að hún hyggst fela Bush fjögur ár í viðbót. Hún hefur viðhorf til lífsins og umheimsins, sem hér í Evrópu þekkjast aðeins í fámennum sértrúarsöfnuðum og öðrum ofbeldishópum. Hún mundi telja Sjálfstæðismenn terrorista, ef hún vissi, að þeir væru til.

Vandi heimsins næstu fjögur árin er ekki fyrst og fremst George W. Bush að kenna, heldur klikkuðum kjósendum, sem eru ófærir um að sjá heiminum fyrir forustu inn í framtíðina.

Jónas Kristjánsson

DV