Skiljanlegt er, að útflytjendur ferskfisks telji, að ýmsir fjölmiðlamenn séu á mála hjá frystiiðnaðinum. Svo eindregið hlutdrægt er margvíslegt fréttaefni af þessum málum, einkum í ríkissjónvarpi allra landsmanna. En hlutdrægnin á sér aðrar skýringar en fjárhagslegar.
Margir blaða- og fréttamenn eru afar háðir klisjum, sem valdamenn nota til að spara sér rök og til að losna við að þurfa að taka afstöðu til óþægilegra raka. Í samspili valdamanna og allt of margra blaðamanna koma klisjur í stað efnislegrar meðferðar mála.
Eitt dæmi um klisju, sem hefur öðlast sess trúarsetningar í valdakerfinu, er orðalagið “fullvinnsla”. Það er notað um geymsluaðferð frystingar, sem ver fiskinn skemmdum, svo að hann verði seljanlegur á næstum eins háu verði og hann er ferskur og ófrystur.
Með því að nota orðið “fullvinnslu” um þessa afar dýru starfsemi, sem gefur lítið í aðra hönd, er því komið á framfæri, að hún sé bæði göfug og brýn. Orðið minnir mjög á orðalagið um, að við eigum “að vera sjálfum okkur nógir” í framleiðslu landbúnaðarafurða.
Jafnvel þótt þjóðin hafi áratugum saman flutt inn meirihlutann af matvælum sínum, er klisja sjálfsþurftarbúskapar notuð til að verja umfangsmikla starfsemi, er hentar frekar tempruðu loftslagi en hinu napra loftslagi, sem er hér norður við jaðar freðmýrabeltisins.
Þótt margoft sé bent á, að ótal klisjur af þessu tagi séu til óþurftar og skekki yfirsýn fólks, gæta notendur þeirra þess vandlega að svara slíku aldrei efnislega og taka aldrei þátt í neinum skoðanaskiptum um, hvað felist í raun og veru í hinum heittelskuðu klisjum.
Blaða- og fréttamenn hafa í sumum tilvikum aðeins svipað gripsvit á málefnum og ráðherrar hafa eða ef til vill lítið meira. Auðveld leið úr þeim vanda er hin sama og hagfræðinganna, sem vonast til, að valdamenn líti til þeirra með velþóknun, þegar embætti losna.
Þær tvær stéttir, sem helzt gætu flett ofan af klisjum stjórnmálamanna, gera það ekki, af því að hlutar þeirra vilja baða sig í endurkasti sólargeisla valdsins. Sumir hagfræðingar vilja verða hagstjórar og sumir fréttamenn ímynda sér sig vera innanbúðarmenn í valdakerfinu.
Á takmarkaðri þekkingu má ná langt með að láta vaða á klisjusúðum. Heilu ræður og tilkynningar ráðherra eru lítið annað en röð af innihaldsrýrum og jafnvel merkingarfölsuðum klisjum. Hið sama er að segja um ýmsar fréttir af framtaki þessara sömu ráðherra.
Hefðbundið er, að fjölmiðlamenn líti á sig sem svokallaða fjórðu stétt, utan valdakerfisins. Þess vegna er miður, að of margir úr þeim hópi vilja líta á sig sem hluta valdakerfisins og bera sig jafnvel saman við ráðherra. Sú glýja er byggð á misskilningi á eðli valds.
Vald byggist ekki á að birta klisjur stjórnmálanna í fjölmiðlum. Vald á Íslandi byggist á skömmtun. Stjórnmálamenn keppa um að komast í aðstöðu til að skammta, verða ráðherrar, það er að segja skömmtunarstjórar eins og nokkrir helztu embættismenn kerfisins.
Þótt blaða- eða fréttamaður klæðist í hálstau og jakka, hafi daglegan samgang við skömmtunarstjórana, ráðherra og embættismenn, kunni tungumál þeirra og komi klisjum þeirra á framfæri við þjóðina, eru þeir ekki orðnir valdastétt, þótt sumir þeirra ímyndi sér það.
Blaða- og fréttamönnum ber að líta raunsæjum augum framhjá geislabaugum skömmtunarvaldsins og hafna klisjum, sem þeir eru látnir magna í fjölmiðlum.
Jónas Kristjánsson
DV