Þótt flestir stjórnmálamenn fullyrði og flestir landsmenn trúi í blindni, að raunvextir séu mun hærri hér en annars staðar og hærri en eðlilegt megi teljast, eru þessir vextir í raun á svipuðu róli og vextir í öðrum löndum og jafnvel lægri en í sambærilegum löndum.
Síbyljan um háa raunvexti hér á landi er ágætt dæmi um klisju, sem orðin er svo útbreidd og föst í sessi, að hún er orðin að þjóðarkreddu. Mörg dæmi eru til um slíkar trúarsetningar, sem koma samanlagt í veg fyrir vitræna umræðu um ýmsa brýnustu þjóðarhagsmuni.
Seðlabankinn kannaði nýlega vaxtakjör í ýmsum löndum og reyndi að bera saman þá vexti, sem sambærilegir eru. Í ljós kom, að vextir eru lægri hér á landi en á Spáni, í Írlandi, Belgíu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, svo að dæmi séu tekin af ríkjum á svipuðu þróunarstigi.
Athyglisvert væri fyrir okkur að fræðast um, hvernig Ástralir og Nýsjálendingar hafa á síðustu árum rifið sig upp úr fyrri stöðnun, kastað frá sér gömlum kennisetningum og til dæmis stórhækkað vexti, með þeim árangri, að þjóðarhagur blómstrar á nýjan leik.
Annað trúaratriði þessu skylt er síbyljan um, að fjármagnskostnaður sé að sliga íslenzk fyrirtæki. Sannleikurinn er hins vegar sá, að vaxtakostnaður atvinnulífsins í heild er 4% af heildartekjum, sjávarútvegsins 6% og 8% hjá fiskvinnslunni, sem einna verst er sett.
Raunar ætti að vekja meiri undrun okkar, að fjármagnskostnaðurinn skuli ekki vera meiri en þetta, jafnvel í fiskvinnslufyrirtækjum með lítið sem ekkert hlutafé. Fyrirtæki í útlöndum, sem standa á slíkum brauðfótum eiginfjárskorts, búa við hærri fjármagnskostnað.
Hinn hagnýti tilgangur kreddukenninganna um okurvexti á Íslandi og ósæmilegan fjármagnskostnað er að búa til andrúmsloft, þar sem gæludýr þjóðfélagsins, svo sem Samband íslenzkra samvinnufélaga, geta fengið nægan aðgang að ódýru lánsfé, svo að þau haldi lífi.
Þriðja klisjan, sem mæðir þjóðarhag, er orðið “undirstöðuatvinnugrein”, sem gefur í skyn, að dulbúið atvinnuleysi á borð við landbúnað sé að einhverju leyti æðra en ýmis starfsemi, sem á sér skemmri aldur hér á landi og telst því ekki til hefðbundinna atvinnugreina.
Þetta er skylt trúarsetningunni um, að brýnt sé að “fullvinna” sjávarafla hér heima, en senda hann ekki “óunninn” úr landi. Með þessu er verið að gefa í skyn, að frystur fiskur sé að einhverju leyti göfugri eða verðmætari en ferskur fiskur, sem er hrein fjarstæða.
Þessa dagana hamast hagfræðingastóð stjórnvalda við að senda frá sér tölur um, að verðbólgan sé ört minnkandi og muni fara niður í svokallaða eins stafs tölu eftir áramótin. Þetta afrek er unnið með þeirri einföldu aðferð að taka hitamæla hagkerfisins úr sambandi.
Klisjan, sem notuð er í þessu skyni, er að setja samasemmerki milli verðbólgu og falsaðra vísitalna. Hagfræðingar lesa tölur af hitamæli, er tekinn hefur verið úr sambandi um skamman tíma, og láta líta svo út, sem þessar marklausu tölur mæli raunverulega verðbólgu.
Öllu þessu og meiru til trúir þjóð, sem vill vera “sjálfri sér nóg” í framleiðslu matvæla og trúir því líka, að “þjóðhagslega hagkvæmt” sé að veita íslenzka ríkisábyrgð til að smíða í Perú togara fyrir Marokkó, svo að hinar þjóðlegu skipasmíðar megi eflast hér á landi.
Ýmsar landlægar klisjur og kreddur af þessu tagi mynda eins konar þjóðhagsleg og þjóðleg trúarbrögð og koma í veg fyrir, að unnt sé að ræða af viti um málin.
Jónas Kristjánsson
DV