Athyglisverðasta 1. maí ávarpið kom að þessu sinni frá verkalýðsfélaginu Afli á Austurlandi. Þar segir, að tekjuháir, með meira en 500 þúsund eftir skatta, hafi klófest umræðuna um niðurfellingu skulda. “Það er sami hópur og var skuldsettastur. Hafði veðsett eigur sínar upp í topp og oft lengra til að viðhalda lífsstíl og til að fjárfesta í góðærinu. Og úr hvaða tekjugeira kemur stærstur hluti þingmanna og hvaðan koma álitsgjafar fjölmiðla og þeir sem stjórna fjölmiðlum? Jú helstu áhrifavaldar samfélagsumræðu í dag eru úr þessum efsta tekjufimmtungi og því er umræðan svo einlit og öfgakennd.”