Klúðrari afhjúpaður.

Greinar

Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra hefur misst tökin á viðræðunum við forstjóra Svissneska álfélagsins um fjármál Íslenzka álfélagsins. Fulltrúi Framsóknarflokksins, Guðmundur G. Þórarinsson, hefur sagt sig úr álviðræðunefnd.

Hjörleifur gat látið sér andóf í léttu rúmi liggja, meðan það birtist á síðum Morgunblaðsins og í stefnu þingflokks sjálfstæðismanna. Það andóf fól í sér í sumum myndum óbeinan stuðning við hið erlenda fjölþjóðafyrirtæki.

Hitt er ekki bara verra, heldur allt annar handleggur, þegar fulltrúi stærsta samstarfsflokksins í ríkisstjórn lýsir fullkomnu frati á meðferð Hjörleifs á samningum við Svisslendinga á öndverðum þessum vetri.

Guðmundur G. Þórarinsson er ekki að gagnrýna réttmæta endurskoðun Coopers & Lybrand á bókhaldi viðskipta Alusuisse við sjálft sig á kostnað Ísals og þar með íslenzkra skattgreiðenda. Hann deilir á síðustu málsmeðferð.

Hann sagði sig í gær úr álviðræðunefnd, af því að Hjörleifur tók ekki mark á vilja meirihluta nefndarinnar, sem vildi brjóta ísinn í viðræðunum við forstjóra Svissneska álfélagsins, – og kippti þar með forsendum undan nefndinni.

Guðmundur hafði í stórum dráttum lagt til, að Svisslendingum yrði gert skriflegt tilboð um 20% hækkun orkuverðs til Ísal 1. febrúar og um frekari samninga fyrir 1. apríl um orkuverð í samræmi við verð í Evrópu og Ameríku.

Ennfremur hafði Guðmundur gert ráð fyrir, að Íslendingar gætu fallizt á stækkun álversins, ef samningar næðust. Jafnframt gætu þeir hugsað sér nýjan meðeiganda Alusuisse að Straumsvíkurverinu, ef samningar næðust.

Guðmundur og meirihluti álviðræðunefndar töldu sig hafa ástæðu til að ætla, að slíkar tillögur væru ekki fjarri hugmyndum Alusuisse um frekari málsmeðferð og væru um leið prófsteinn á góðan vilja þess eða illan.

Síðasta bréf Svisslendinga fyrir nýjustu viðræðurnar benti til, að þeir áttuðu sig á staðreyndum og vildu semja. Samt hafa nokkrir fundir við þá farið í það eitt, hvort ræða skuli, en ekki í neinar samningaviðræður.

Guðmundur telur, að Hjörleifur hafi staðið rangt að þessum síðustu viðræðum við forstjóra Alusuisse. Hann geti ekki samið við Svisslendinga eða vilji það ekki, nema hvort tveggja sé. Er það hin alvarlegasta ásökun.

Hjörleifur hefur boðað mótleik í formi upplýsinga, sem hingað til hafa ekki legið á lausu. Ef til vill getur hann sýnt fram á, að hann hafi efnislega eitthvað til síns máls, þótt teljast verði fremur ótrúlegt.

Ósigur Hjörleifs felst fyrst og fremst í að opinberast landslýð sem einstrengingur, er getur ekki agað álviðræðunefnd sem einhuga samningsaðila við Svissneska álfélagið. Hann virðist skorta lipurð stjórnmálamannsins.

Hjörleifur gat látið stjórnarandstöðuna liggja milli hluta, meðal annars í því skyni að koma á hana óþjóðlegum stimpli. En innan stjórnar varð hann að halda einingu og taka eitthvert mark á rökstuddum tillögum um meðferð viðkvæms máls.

Hugsanlegt er, að Hjörleifur haldi Íslendinga svo vitlausa, að Alþýðubandalagið geti brunað út í kosningabaráttu með þá kolröngu fullyrðingu, að allir aðrir stundi landráð í álmálinu. En það væri hrapalleg villuspá.

Jónas Kristjánsson

DV