Klukkan tifar hraðar

Greinar

Þegar hitinn á daginn er enn um 12 stig í miðjum október, er eðlilegt, að fólk telji í fyrsta lagi, að aukinn hraði sé í hækkun hita af völdum aukins koltvísýrings í loftinu, og í öðru lagi, að þetta sé í rauninni hið bezta mál, að minnsta kosti fyrir Íslendinga á jaðri hins byggilega heims.

Að minnsta kosti fyrri skoðunin er rétt. Mælingar sýna, að árin 2002 og 2003 voru ár aukins koltvísýrings og aukins hita, sérstaklega á norðurhveli jarðar. Við vitum, að árið 2004 verður enn róttækara að þessu leyti. Úreltar eru orðnar fyrri spár fræðimanna um þróun mála í andrúmslofti jarðar.

Vísindaráðgjafi brezka ríkisins, David King, lýsti yfir því á þriðjudaginn, að ríkisstjórnir verði þegar í stað að gera ráðstafanir til að hindra öngþveiti. Við höfum ekki ráð á að halda að okkur höndum, sagði hann. Kyoto-bókunin er ekki nóg, hún er bara byrjun. Við þurfum strax að herða aðgerðir.

Hingað til hefur verið talið, að mannkynið hefði nokkurra áratuga svigrúm til að grípa til aðgerða gegn menguninni. Nú segja fræðimenn hins vegar, að einungis sé um örfá ár að tefla. Ef aukning koltvísýrings og hækkun hitastigs heldur áfram í tvö ár í viðbót, sé vandinn að fara úr böndum.

Það gerist nefnilega fleira en, að hitinn hækki. Ísbreiður heimskautanna og Grænlands bráðna mun hraðar og hafið fer að ganga á land. Sérlegur ráðgjafi síðustu stjórnar íhaldsmanna í Bretlandi, Tom Burkie, sagði nýlega, að klukkan sé farin að tifa hraðar og hætta sé á að sprengiverkun mengunar.

Ef vatnið eykst í úthafinu og yfirborð þess hækkar, steðjar hættu að öllum strandbyggðum, þar á meðal stórborgum við sjávarsíðuna. Íslendingar verða að taka á þeim vanda eins og aðrar þjóðir. Hækkun hitastigs þýðir ekki bara fleiri daga til að rölta fáklæddir um miðborgina og sleikja rjómaís.

Hingað til hafa margir talið áætlanir Sameinuðu þjóðanna vera ýktar á þessu sviði, þar á meðal átrúnaðargoð margra Íslendinga, Daninn Bjørn Lomborg. Nú er hins vegar komið í ljós, að spárnar voru ekki of háar, heldur hafa þær verið of lágar. Hættuna ber hraðar að garði en grænfriðungar sögðu.

Sem betur fer ætlar Rússland að staðfesta Kyoto-bókunina um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda í auðríkjum heimsins. Þá tekur hún gildi, gegn vilja örfárra ríkja, einkum Bandaríkjanna, sem telja sig ekki hafa ráð á að taka þátt í þessu fyrsta skrefi í átaki gegn hættulegri mengun.

Fleira er slæmt við aukinn hita en hækkað yfirborð sjávar. Straumar færast til í hafinu og færa til þorskinn, sem heldur sig á mörkum heitra og kaldra strauma í hafinu.

Jónas Kristjánsson

DV