Kokkurinn

Veitingar

Matreiðsla Kokksins á Laugavegi 28 hefði þótt fyrsta flokks fyrir tíu árum. Um þessar mundir er hún lýtalítil og frambærileg. En hún hefur lítið af sérkennum, sem greini hana frá öðrum. Samt er þetta nýr staður. Nýir menn hafa keypt Ask, breytt honum og kallað: Hjá kokknum.

Í hinni hörðu samkeppni nútímans, þegar vikulega er opnað nýtt veitingahús, velta menn auðvitað fyrir sér, hvort þetta sé eitthvað nýtt eða bara meira af sama. Ekki geta allir staðizt samkeppnina, ef þeir eru allir nokkurn veginn eins. Enda auglýsir til dæmis einn nýju staðanna, að hann bjóði upp á nýja, franska eldhúsið.

Einn staður þrífst, af því að hann býður upp á útsýni yfir fiskibátahöfnina. Annar blómstrar, af því að hann hefur bezta salatborð landsins fyrir lítið verð. Hinn þriðji skákar lægsta verðinu og hinn fjórði bezta matnum. Aðrir bjóða upp á matreiðslu fjarlægra landa. Þannig reynir hver að búa til sérstöðu, er safni að sér stuðningsliði. Í þessari mynd er Kokkurinn hvergi.

Lagfærð húsakynni

Húsakynni Kokksins hafa verið lagfærð. Askurinn hinn mikli á miðju gólfi hefur verið fjarlægður. Þar hefur í staðinn verið komið fyrir hljómborði. Að öðru leyti er þetta gamli Askur með básum einum fyrir um 50 manns í sæti og hinum undarlegu spakmælum á skinnpjötlum milli bása. Menn þekkja áfram grófu bitana og hleðslusteinvegginn, svo og vegglampa úr leir og smíðajárni.

Hálfopið er inn í eldhús, en minna en áður, því að bar hefur verið skotið inn í salinn við enda hans. Á borðum eru dúkar og kerti í koníaksglösum, svo og munnþurrkur úr pappír. Staðurinn er rýmri en áður og heldur bjartari, en samt ekki verulega notalegur.

Kínverska pönnukakan var mjög góð, mun betri en flestar aðrar, sem prófaðar hafa verið í tengslum við þennan greinaflokk. Hún var hæfilega þunn og stökk. Innmaturinn var tiltölulega vandaður. Með henni fylgdu hæfilega lítið soðin hrísgrjón með hæfilega sterkri karrísósu, svo og blaðsalat, tómatar og gúrka.

Grænmetissúpa dagsins var borin fram með gömlu og seigu osta- og saltbrauði. Sjálf súpan var hnausþykk af hveiti, sem flutti með sér nokkurn keim. Hins vegar flaut í henni ágætis grænmeti, sem ekki hafði grautazt, heldur verið látið út í hæfilega seint og þá verið ferskt, en ekki úr dósum.

Franska lauksúpan var að því leyti öðruvísi en margar slíkar, að hún hafði áberandi tómatbragð. Að öðru leyti var hún undir hinu venjulega þaki brauðbita og osta. Þetta var hæfilega krydduð súpa, raunar góð súpa.

Sjávarsalat fól í sér rækjur, krækling og humar. Þetta var gott salat, svona svipað og gestir geta búizt við á flestum sæmilegum veitingahúsum. Með réttinum fylgdi smjördeigsmáni og mild tómatsósa sérlöguð.

Grillaði kjúklingurinn var meyr og góður, hæfilega eldaður. Með honum voru djúpsteiktar kartöflur, betri en þessar venjulegu “frönsku”. Svokölluð madeira-sósa var mild hveitisósa, sem fékk fljótlega skán.

Hrásalat á sama diski fylgdi öllum aðalréttum Kokksins. Það var smásaxað og skreytt með appelsínusneiðum, tómati, rauðri papriku og bandarískri salatsósu, ekki góðri. Með fiskréttunum komu sítrónusneiðar í stað appelsínusneiðanna.

Bragðljúfur turnbauti

Turnbautinn var óvenjulega góður, nákvæmlega hrásteiktur, eins og um var beðið, þykkur og meyr og sérdeilis bragðljúfur. Með fylgdi bökuð kartafla og hið ógeðslega, mauksoðna rósakál, sem eingöngu á Íslandi er talinn mannamatur.

Lambalundirnar hvítlaukssteiktu voru hins vegar heldur mikið steiktar, enda mega svo grönn kjötstykki nánast ekki við neinu. Með þeim fylgdi hið sama og turnbautanum, þar á meðal mild béarnaise-sósa í betri kantinum.

Karríristaður skötuselur var rétt rúmlega mátulega eldaður, einn bezti matur prófunarinnar. Hann var borinn fram með ananas-sneiðum, hrísgrjónum, rjómaðri karrísósu mildri og sýrðum gúrkum.

Á stuttum seðli dagsins voru tveir réttir, auk grænmetissúpunnar áðurnefndu. Annar rétturinn var pönnusteiktur karfi, sem reyndist vera þrælsteiktur og beinlínis vondur, eins og upp úr hitapotti í mötuneyti. Honum fylgdu fallegar, soðnar kartöflur og fremur ólystugt remúlaði.

Versti vínlistinn

Kokkurinn hefur vínveitingaleyfi og býður upp á stuttan vínlista, sem á þann vafasama heiður að vera hinn lélegasti, er ég hef séð í heiminum. Þar er eitt drykkjarhæft rauðvín, Chateau de Saint Laurent, en ekkert hvítvín, sem ég gæti hugsað mér að innbyrða, nema ef væri af atvinnuástæðum.

Þegar kokkurinn var prófaður, reyndist þjónustan vera góð, meira að segja ræðin, sem er allt í lagi, þegar hún er kunnáttusamleg, svo sem raunin var. Stúlkan vissi til dæmis alveg, hver hafði pantað hvað og gat útskýrt, hvernig réttirnir yrðu matreiddir.

Kokkurinn hefur tvo fastaseðla, annan í hádeginu og fram eftir degi, en hinn að kvöldi til. Innihald seðlanna er mjög svipað. Hádegisseðillinn er þó nokkru ódýrari en kvöldseðillinn. Seðill dagsins er svo bæði í hádeginu og á kvöldin, en telur aðeins tvo eða þrjá aðalrétti.

Á kvöldseðlinum er miðjuverð forrétta 165 krónur, súpa 78 krónur, fiskrétta 241 króna, kjötrétta 453 krónur og eftirrétta 153 krónur. Með kaffi á 12 krónur og hálfri flösku af húsvíni á 130 krónur ætti þriggja rétta máltíð að kosta að meðallagi um 762 krónur, sem mér finnst nokkuð hátt. Í hádeginu yrði hliðstætt verð 618 krónur. Súpa og aðalréttur á seðli dagsins gæti verið á 210 krónur.

Þetta er sem sagt frambærilegur staður á frekar háu verði. Og fátt er sérkenna, er geri staðinn eftirminnilegan.

Jónas Kristjánsson

DV