Námskeið ýmissa aðila fyrir atvinnulausa hafa gerbreytt lífi margra þeirra, sem þátt hafa tekið. Þeir hafa ekki aðeins aflað sér nytsamlegrar og verðmætrar kunnáttu. Þeir hafa einnig áttað sig á ýmsum atvinnu- og athafnatækifærum, sem þeir sáu ekki greinilega áður.
Menningar- og fræðslusamband alþýðu hefur bætzt í hóp þeirra aðila, sem bjóða fræðslu fyrir atvinnulausa. Það býður vikunámskeið, sem eru svo eftirsótt, að það annar ekki eftirspurn. Þetta starf fór fremur hægt af stað fyrir ári, en er nú komið á fljúgandi ferð.
Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir þátttökugjöld atvinnulausra. Því fé er vel varið. En sjóðurinn er illa stæður og hefur ekki efni á að gera eins mikið og þyrfti á þessu sviði, því að skyldur hans beinast fyrst og fremst að atvinnuleysisbótum, sem hafa þyngzt ört í vetur.
Atvinnuleysi er líkt kreppu að því leyti, að það á rætur að hluta í hugarfari fólks. Atvinnuleysi hugarfarsins er skylt kreppu hugarfarsins. Þetta sést jafnan vel í aðvífandi kreppu, þegar margir magna hana með því að draga saman segl á sama tíma til að verjast stórsjóum.
Háskólinn hefur frumkvæði að söfnun upplýsinga, sem sýna, að töluvert er til af ónotuðum tækifærum. Þar er líka búið að koma á fót stuttu námi í hagnýtum fræðum, sem henta þeim, sem vilja afla sér þekkingar á vænlegum sviðum. Þátttakendur þurfa ekki stúdentspróf.
Margir atvinnulausir eru auðvitað ekki undir það búnir að grípa tækifæri úr gögnum Háskólans eða leggja í eins árs nám, sem getur reynzt erfitt. Sumum henta frekar hálfs vetrar námskeið, sem boðin eru í námsflokkum, svo sem gamalgrónum Námsflokkum Reykjavíkur.
Fyrir suma getur hentað að byrja á vikunámskeiðum hjá Menningar- og fræðslusambandi Alþýðu, stökkva síðan upp í Námsflokkana, taka svo til við eins árs nám í Háskólanum og grípa loks eitt af hinum mörgu tækifærum til nýsköpunar, sem eru á skrám Háskólans.
Þetta byggist á, að kreppa er yfirleitt tengd afmörkuðum greinum, einkum láglaunagreinum. Samhliða atvinnuleysinu er verið að auglýsa eftir fólki á öðrum sviðum og stundum með of litlum árangri, hreinlega af því að ekki er til nógu mikið af fagfólki á því sviði.
Bjóða þarf atvinnulausum byrjendanámskeið, þar sem farið er yfir atvinnutilboð í dagblöðum og skilgreint, hvers konar kunnátta er eftirsótt. Síðan þarf að bjóða stutt námskeið á sviðum, þar sem hugsanlegt er á stuttum tíma að ná afmörkuðum árangri, það er að fá vinnu.
Þeir, sem lengra eru komnir í sjálfstrausti, geta þurft námskeið í rekstrartækni og markaðssetningu, bókfærslu og tölvubókhaldi, réttritun og viðskiptaensku, fjárhagslegu aðhaldi og fjármálastjórn, svo og auðvitað námskeið í sérstökum geirum atvinnulífsins.
Afleiðingin er, að fleiri en áður rífa sig upp úr hugarkreppu atvinnuleysis og gera sig hæfa til að vinna nýtt starf í stað hins tapaða og að fleiri en áður grípa tækifæri til nýsköpunar. Á þetta leggst bónus, sem felst í margfeldisáhrifum veltunnar í þjóðfélaginu.
Sá, sem aflar sér atvinnu á nýju sviði, aflar sér um leið tekna, sem hann notar að hluta til að kaupa þjónustu. Það þýðir aukna veltu í þjóðfélaginu, aukna bjartsýni og nýjar ráðagerðir um útþenslu. Þannig má útrýma kreppu með því að ráðast fyrst á kreppu hugarfarsins.
Einnar viku námskeið getur verið eins og ævintýrið um kolbítinn, sem reis úr öskustó. Enn markvissara starf getur látið kreppu hverfa eins og dögg fyrir sólu.
Jónas Kristjánsson
DV