Kolkrabbi og smokkfiskur

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur með hjálp Alþingis gengið erinda fáokunarhrings tryggingafélaganna gegn hagsmunum almennings. Hvort hann hefur gert það af einhverjum orsökum eða hvötum skiptir minna máli en staðreyndin sem slík, að sérhagsmunir ráða ferð hans.

Tryggingafélögin eru siðlaus í viðskiptum við fólk. Þau neita til dæmis að greiða lögboðnar bætur og láta tugi mála fara fyrir dómstóla. Þótt þau tapi hverju málinu á fætur öðru, halda þau hinum málunum til streitu án þess að taka mark á fordæmisgildi dóma í prófmálum.

Þannig hefur ríku og voldugu aðilunum tekizt að fresta því, að tugir einstaklinga, sem eiga um sárt að binda, fái nokkrar bætur. Þannig hafa ríku og voldugu aðilarnir þvingað þá, sem verst eru settir vegna örkumla, til að semja um mun minni bætur en lög gera ráð fyrir.

Óbilgirni og græðgi tryggingafélaganna hefur magnazt í skjóli dómsmálaráðherra og Alþingis. Viðurkennt er, að frumvarp til skaðabótalaga var samið í dómsmálaráðuneytinu að frumkvæði samtaka fáokunarhrings tryggingafélaganna, sem vildu minnka útgjöld sín.

Fenginn var til þess lagaprófessor, sem var hallur undir tryggingafélögin og hafði unnið fyrir þau. Hann gaf Alþingi rangar upplýsingar um innihald laganna. Markmið þeirra var og er að minnka útgjöld tryggingafélaganna á kostnað fólks, enda hefur það tekizt.

Hvorki dómsmálaráðherra né Alþingi hafa þó sér það til afsökunar, að hafa sætt blekkingum prófessorsins. Flett var ofan af málinu í fjölmiðlum á sínum tíma, en ráðamenn þjóðarinnar létu það sem vind um eyru þjóta. Þeir voru ákveðnir í að þjóna tryggingafélögunum.

Lagafrumvarp tryggingafélaganna var útskýrt með því að segja misvægi vera milli bóta fyrir mikil og lítil tjón. Því vægi var hins vegar ekki breytt með því að færa fjármagn milli flokka, heldur með því að minnka greiðslur á öðrum vængnum og halda þeim óbreyttum á hinum.

Frumvarpið var einnig varið með því að segja, að það gerði ráð fyrir fullum bótum. Staðreyndin var hins vegar sú, að það gerði ráð fyrir þremur fjórðu hlutum af fullum bótum. Tryggingafélögin og prófessorinn komust upp með þessar blekkingar fyrir rúmum þremur árum.

Síðan hefur sannleikurinn komið í ljós. Allsherjarnefnd Alþingis fékk skipaða nefnd til að finna hann. Hún lagði til fyrir réttu ári, að margföldunarstuðull yrði hækkaður úr 7,5 í 10 til þess að lögin næðu yfirlýstum tilgangi. Þessi niðurstaða var rækilega rökstudd.

Dómsmálaráðherra hefur ekki lyft litla fingri til að fá lögunum breytt til samræmis við þetta. Alþingi hefur ekki heldur reynt að bæta fyrir mistök sín. Lögin eru enn þann dag í dag eins og þau voru samin af prófessor tryggingafélaganna og að frumkvæði samtaka þeirra.

Ekki eru líkur á, að ástandið batni í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem er mynduð af tveim stjórnmálaflokkunum, sem ganga lengst í að gæta hagsmuna hinna voldugu, annar kolkrabbans og hinn smokkfisksins. Stjórnarflokkarnir munu gæta hagsmuna tryggingafélaganna.

Síðan geta menn velt fyrir sér ættar- og fjölskyldutengslum í stjórnmálum og fáokunarfyrirtækjum. Þau eru út af fyrir sig ekki kjarni málsins, heldur hitt, að voldugustu stjórnmálaöfl landsins taka jafnan hagsmuni fáokunarfyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings.

Meðan kjósendur sætta sig við, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn séu pólitískir armar fáokunarfyrirtækja, verður ástandið áfram eins og það er.

Jónas Kristjánsson

DV