Komið að skuldadögum

Greinar

Íslendingar nútímans geta ekki áfellzt forfeður sína á fyrri öldum fyrir að hafa kollvarpað gróðurjafnvægi landsins, fyrir að hafa nálega eytt skóginum og minnkað gróðurflötinn um helming. Þetta var samfelld sorgarsaga, en þjóðin átti öldum saman engra kosta völ.

Nú er öldin önnur og hefur raunar lengi staðið. Þjóðin á vel til hnífs og skeiðar. Miklu meira af matvælum er framleitt hér en við þurfum sjálf að nota. Munar þar mest um fiskinn, sem við seljum útlendingum og fáum fyrir flestar þekktar heimsins lystisemdir.

Þar á ofan höfum við áratugum saman búið við öfundsvert hungur í starfskrafta. Við þekkjum ekki lengur atvinnuleysisvofu erlendra þjóða. Þúsundir fólks vantar til að sinna arðbærum störfum, sem auglýst eru í fjölmiðlum. Ný verkefni blasa við á framtíðarvegi.

Við þessar aðstæður er komið að skuldadögum í viðskiptum þjóðar við landið sitt. Þjóðin er gengin svo langt götuna fram eftir vegi, að tímabært er orðið að snúa vörn í sókn, fara að skila landinu aftur því, sem forfeður okkar tóku af því í volæði fyrri alda.

Tilraunir okkar til landverndar og landgræðslu eru enn feimnislegar og fátæklegar. Viðskiptareikningur okkar gagnvart landinu er enn neikvæður um 1000 hektara á hverju ári. Á móti 2000 hektörum, sem við vinnum, töpum við 3000 hektörum út í veður og vind.

Allt of lítið gagn er í friðuðum reitum, sem víða hefur verið komið upp. Fjárbændur rífa bara niður girðingar og reka fé sitt hvert sem þeim þóknast, í krafti þess, að svoleiðis hafi það alltaf verið. Girðingamenn þora varla að æmta, af því að kindur virðast heilagar.

Kominn er tími til að taka til hendinni. Allar móbergsafréttir landsins þarf að alfriða fyrir ágangi húsdýra. Það á einkum við um miðhálendið og afréttir Sunnlendinga og Þingeyinga, sem sauðféð hefur leikið verst. Þetta svæði þarf að girða rammlega og rækta.

Langan tíma tekur að láta skóginn vaxa saman yfir Kjöl á nýjan leik. Víða þarf að nota lúpínu til að búa til jarðveg, svo að hefðbundinn gróður geti síðan numið land. Og ekki er skuldin fullgreidd, fyrr en kominn er skógur, sem bindur jarðveginn til langframa.

Alfriðun verulegs hluta hálendisins kallar að sjálfsögðu á mikla fækkun sauðfjár, að minnsta kosti helmings fækkun, enda þurfum við hvorki á að halda öskuhaugakjöti né framleiðsluhvetjandi og söluhvetjandi styrkjum á borð við uppbætur og niðurgreiðslur.

Mál hafa æxlast þannig, að sauðféð er á ofsakaupi við að eyðileggja landið. Með fækkun sauðfjár sparast stórfé í styrkjum og annarri fyrirgreiðslu. Þessa peninga má sumpart nota til að kosta hina nýju landgræðslu, nota þá til uppbyggingar í stað niðurrifs.

Um leið fást starfskraftar til að sinna margfaldaðri landgræðslu, að svo miklu leyti sem önnur arðbær störf í þjóðfélaginu kalla ekki á þá, sem nú sóa tíma sínum í sauðfjárhald á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Allir liðir uppgjörsdæmisins við landið eru jákvæðir.

Við erum að svíkjast undan merkjum, þegar við látum líða hvert velmegunarárið á fætur öðru, hvert ofbeitarárið á fætur öðru, hvert offramleiðsluár kindakjöts á fætur öðru, hvert eftirspurnarár atvinnu á fætur öðru, ­ án þess að byrja að endurgreiða skuldina við landið.

Öll rök málsins falla á einn veg. Þjóðin verður að hrista af sér ok þjóðaróvinarins og gera upp skuld sína við landið, sem hefur fóstrað hana í ellefu aldir.

Jónas Kristjánsson

DV