Jiang Zemin, forseti Kína, er hættur að láta mynda sig í vestrænum fötum og klæðist nú búningi að hætti Maós formanns. Tónninn í ræðum hans er orðinn hvassari og stríðari en áður var. Jafnframt fer vaxandi yfirgangur Kínverja á hafinu gagnvart nágrannaríkjunum.
Um nokkurra mánaða skeið hefur herinn í Kína stundað æfingar á sundinu milli meginlandsins og Tævan og reynt að haga þeim þannig, að þær skjóti Tævan-búum skelk í bringu. Jaframt ítreka kínverskir ráðamenn oftar og hvassar en áður, að Tævan verði sameinað Kína.
Fyrr í vetur gengu kínverskir hermenn á land á skerjum, sem Filipseyjar telja sig eiga. Kínastjórn var með þessu að reyna að sýna fram á mátt sinn og megin. Með slíkum aðferðum sáir hún um leið öryggisleysi í nágrannaríkjunum og magnar raunar hervæðingu þeirra.
Jafnframt hafa kínverskir ráðamenn ótvírætt sagt, að lýðræðisöfl verði virt að vettugi í Hong Kong, þegar þeir taka þar völdin á næsta ári. Í undirbúningsnefnd valdaskiptanna var ekki skipaður neinn fulltrúi lýðræðisaflanna, sem unnu kosningasigur í Hong Kong í fyrra.
Harka Kínastjórnar hefur aukizt gagnvart Tíbet-búum, menningu þeirra og trúarbrögðum. Hún virti að vettugi val þeirra á barni til að verða Panchet Lama, setti það í stofufangelsi og valdi sjálf annað barn til að gegna þessu hlutverki. Hún þolir enga sjálfstæða skoðun.
Stjórnarandstæðingar í Kína eru ofsóttir harðar en áður. Er nú svo komið, að fangelsaðir eru allir þeir, sem lýsa öðrum sjónarmiðum en þeim, sem viðurkennd eru af stjórnvöldum. Daglega rignir yfir kínverska fjölmiðla tilskipunum um herta hugmyndafræðilega baráttu.
Helzta einkenni kerfisins í Kína er, að það þolir engin frávik frá línunni, sem hefur orðið einstrengingslegri með hverjum mánuðinum að undanförnu. Þetta beindist áður einkum að fólkinu í landinu, en einkennir upp á síðkastið í vaxandi mæli samskiptin við útlönd.
Stjórnin í Kína brýtur hverja þá alþjóðasamninga, sem hún telur standa í vegi fyrir ráðagerðum sínum. Hún heldur áfram tilraunum með kjarnorkuvopn, þótt öll önnur stjórnvöld hafi hætt þeim. Hún skirrist við að efna viðskiptasamninga, sem hún hefur skrifað undir.
Herinn í Kína rekur sjálfur þrjátíu umfangsmiklar verksmiðjur, sem framleiða geisladiska án þess að greiða tilskilin og umsamin gjöld fyrir réttindi. Svipað er að segja um tölvuhugbúnað. Á mörgum sviðum er stundaður ríkisrekinn þjófnaður á vestrænum höfundarétti.
Vestræn fyrirtæki, sem hafa verið ginnt til athafna í Kína, verða að sæta því, að engar leikreglur gilda þar í landi. Þar stjórna ekki lög og reglur samskiptum fyrirtækja og opinberra aðila, heldur hreinn geðþótti ríkisins, þar á meðal eignaupptaka, ef því sýnist svo.
Reynslan hefur líka sýnt ráðamönnum Kína, að vestrænir ráðamenn og ráðamenn nágrannaríkjanna fara undan í flæmingi. Í einstaka ríkjum bíða bjálfarnir nánast í biðröð eftir að komast í opinbera heimsókn til Kína. Þetta magnar fjölþætta forherðingu Kínastjórnar.
Þegar forseti Kína afklæðist vestrænu jakkafötunum, sem hafa verið einkenni Deng-tímans, og dregur rykfallinn Maó-jakka úr skápnum, er afturhvarfið til fyrri tíma orðið formlega staðfest. Deng Xiaoping er sjálfur orðinn 91 árs og hefur ekki sézt opinberlega í tvö ár.
Að engu eru orðnar vestrænar vonir um, að ódýrt fjármagn, ódýr þekking og pólitískur stuðningur geri einstrengingslega Kínastjórn alþjóðlega samstarfshæfa.
Jónas Kristjánsson
DV