Kommúnistar stjórna

Greinar

Ráðamenn Íslands eru uppteknir við að skipuleggja atvinnulífið. Þótt þeir neyðist stöku sinnum til að selja ríkisfyrirtæki, hafa þeir strangar skoðanir á, hverjir megi kaupa þau og reyna að beina sölunni í þá átt. Nú síðast mega bara útlendingar kaupa Landsbankann.

Mikið umstang ráðamanna og mikið fé skattgreiðenda rennur til að halda úti atvinnugreinum, sem stjórnvöld telja merkari en annan atvinnurekstur. Sérstakan áhuga hafa þeir á að koma hér upp nítjándu aldar stóriðju og varðveita forna atvinnuvegi til lands og sjávar.

Skjalfest erlend og hérlend reynsla er fyrir því, að vaxtarbroddur atvinnu og tækifæra er alls ekki í stórum fyrirtækjum í öldruðum greinum, heldur eingöngu í fámennum fyrirtækjum í nýjum greinum. Vaxtarbroddurinn er eðlis síns vegna óskipulagður niðri í grasrótinni.

Ef markaðurinn fengi að ráða ferðinni, þyrftum við ekki að kvíða framtíðinni. Grasrótin mundi sjá um, að sífellt væri verið að stofna ný smáfyrirtæki í nýjum greinum. Þessi fyrirtæki mundu kalla eftir menntun við hæfi. Íslendingar yrðu með á nótum framtíðarinnar.

Ef markaðurinn fengi að ráða ferðinni, mundu stjórnvöld sjá um heilbrigt rekstrarumhverfi, þar sem gamalt og gróið hefði engan forgang fram yfir nýtt og viðkvæmt. Þau mundu tryggja fulla aðild Íslands að öllum hugsanlegum efnahags- og viðskiptasvæðum auðþjóða jarðarinnar.

Ráðamenn þjóðarinnar eru ekki vaxnir upp í atvinnulífi, heldur ríkisforsjá. Að svo miklu leyti sem þeir hafa skoðanir á efnahags- og atvinnulífi, eru þeir kommúnistar í hjarta sínu. Þeir telja það vera hlutverk sitt að stýra vegferð atvinnulífsins og hafa vit fyrir fólki.

Dæmigert fyrir verndarstefnu kommúnistanna er, að það skuli vera opinber stefna stjórnvalda, að þátttaka í Evrópusambandinu skuli alls ekki vera til umræðu hér á landi, einkum af því að hún gæti hugsanlega skaðað forna atvinnuhætti til lands og einkum þó til sjávar.

Eitt meginatriðanna í stefnu stjórnvalda er, að hádegisverðurinn sé ókeypis. Ráðamenn telja það vera eitt meginhlutverk sitt að skipuleggja ókeypis aðgang tilgreindra aðila að auðlindum lands og sjávar. Frægasta dæmið um þetta er sovézka kvótakerfið í fiskveiðum okkar.

Nýjustu dæmin felast hins vegar í ókeypis aðgangi orkuvera og stóriðju að þeim fáu verðmætum í landinu, sem mölur og ryð fá ekki grandað. Hamingja kommúnistanna í ríkisstjórn yrði mest, ef Ísland fengi stóra reykháfa á borð við þá, sem eru í Novosibirsk í Rússlandi.

Eins og kommúnistar Sovétríkjanna sálugu eru ráðamenn Íslands uppteknir við að troða lausnum nítjándu aldar upp á þjóð, sem hefur þarfir tuttugustu og fyrstu aldar og biður ekki um aðra aðstoð stjórnvalda en að fá að vera í friði við að byggja upp framtíð sína.

Hér eru afdankaðir stjórnmálamenn að ramba um með gengi krónunnar, öllum hugsandi mönnum til skelfingar, meðan aðrar þjóðir fá tækifæri til að taka upp nothæfa fjölþjóðapeninga. Hér ráða afdankaðir stjórnmálamenn ferðinni í Landsvirkjunum ríkisrekins atvinnulífs.

Lögfræðimenntaðir kommúnistar eru aldir upp á opinberum kontórum frá blautu barnsbeini og þykjast geta stjórnað vegferð okkar inn í framtíð, sem verður ótrygg, en örugglega óralangt frá fornum atvinnuháttum og krampakenndri skipulagsáráttu kommúnismans.

Ef þið viljið tryggja framtíð barna ykkar í framtíð, sem verður gerólík fortíðinni, eigið þið að hætta að velja íhaldssama kommúnista til að fara með ríkisvaldið.

Jónas Kristjánsson

DV