Kónginum fylgir árferðið

Greinar

Skoðanakannanir í Bandaríkjunum og á Íslandi hafa á þessu ári sýnt, að helztu valdamenn þjóða geta orðið því vinsælli sem meira og almennar er deilt á vinnubrögð þeirra. Ekki má á milli sjá, hvor er vinsælli heima fyrir, ríkisstjórn Íslands eða Bandaríkjaforseti.

Ríkisstjórn Íslands sætir þungum ákúrum fyrir að gefa Hæstarétti langt nef, fyrir einkavinavæðingu og úthlutun sérleyfa til gæludýra sinna, fyrir árásir á ósnortin víðerni landsins og margt fleira. Bandaríkjaforseti sætir þungum ákúrum fyrir lygar um kvennafar sitt.

Meðan ósköpin dynja yfir, rísa vinsældir beggja í skoðanakönnunum. Hér gengur þetta svo langt, að flokkar ríkisstjórnarinnar eru nálægt svo rúmum meirihluta, að þeir gætu fengið færi á að breyta stjórnarskránni, svo sem utanríkisráðherra sægreifanna hefur hótað.

Bandarískir og íslenzkir kjósendur láta skammir á þingi og í fjölmiðlum sem vind um eyru þjóta. Þeir eru hugsanlega sammála einhverju af því eða öllu því, sem ráðamönnum landanna er álasað fyrir. En þeir láta það ekki hafa áhrif á fyrirætlanir sínar í kjörklefanum.

Kjósendur miða við eitthvað annað en umdeild mál, jafnvel þann málstað, sem þeir eru sammála. Skoðanakannanir sýna, að Bandaríkjamenn eru ósáttir við lygar forsetans og að Íslendingar eru ósáttir við gjafakvóta sægreifanna og árásirnar á ósnortin víðerni.

Kjósendur ætlast nefnilega ekki til, að ráðamenn sínir fari eftir því, sem stjórnarandstaðan vill, sem greinahöfundar fjölmiðla vilja, sem almenningur sjálfur vill. Þeir vilja hins vegar, að landsfeður skaffi. Þeir vilja búa við góðæri og þeir vilja búa við traust góðæri.

Íslenzkir kjósendur eru fullvissir um, að væntanlegir forustumenn samfylkingar jafnaðarmanna geti ekki skaffað. Þeir sjá, að vikum saman geta þeir ekki einu sinni náð samkomulagi um fyrirkomulag á röðun framboðslista. Þeir sjá þá stinga hver annan í bakið.

Íslenzkir kjósendur vilja og virða, að sumir stjórnarandstæðingar séu vel að sér um mál eða harðir ræðunaglar, en þeir ætla ekki að kjósa Hjörleif eða Steingrím eða Svavar. Þeir vilja heldur Davíð eða Halldór, sem þeir telja, að muni geta skaffað áframhaldandi góðæri.

Góðærið er óumdeilanlegt, þótt það hafi farið hjá þeim fáu, sem eru verst settir. Góðærinu fylgir bæði hátt kaup og atvinnuöryggi. Ríkisstjórnarflokkarnir njóta góðærisins, hvort sem það kemur frá þeim eða stafar af utanaðkomandi ástæðum eða sennilega sitt lítið af hvoru.

Stjórnarflokkarnir hafa gefið í skyn, að þeir geti vel hugsað sér að starfa saman eftir kosningar. Þetta kunna kjósendur vel að meta og sjá fyrir sér framhald á góðæri. Þeir vilja fá nokkra stjórnarandstæðinga til að rífast á þingi og veita landsfeðrum aðhald, en bara nokkra.

Kjósendur eru sáttir við, að hávaðasöm stjórnarandstaða hafi það hlutverk að knýja fram minni háttar breytingar á kvótalögum, erfðagreiningarlögum, virkjanalögum og öðrum lögum, sem Alþingi afgreiði að öðru leyti samvizkusamlega eins og ríkisstjórnin býður.

Kjósendur eru jafn sáttir við, að ríkisstjórnin fái að rétta aukabita að gæludýrum sínum, hvort sem þau eru sægreifar, Kárar, Landsvirkjun eða einstakir armar kolkrabbans, bara ef hún sér um að góðærið haldist og fleiri og betri molar hrynji niður til kjósenda sjálfra.

Málefni eru áhugaverð í pólitík, en ráða ekki gerðum kjósenda. Þar kemur til skjalanna eldforn tilfinning þeirra fyrir því, hvaða kóngur skaffi gott árferði.

Jónas Kristjánsson

DV