Langstærsta vandamál menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Unesco, er sjálfur framkvæmdastjórinn, M’Bow frá Senegal. Hann lítur ekki á sig sem forstjóra í vestrænum skilningi, heldur telur sig hafa alræðisvald eftir afrískum hefðum. Hofmóður hans lýsir sér í ýmsum myndum.
Forstjórinn getur hagað sér eins og alræðisherra, af því að hann hefur traustan stuðning ráðamanna Arabaríkja og Afríkuríkja og víðtækan stuðning ráðamanna annarra ríkja þriðja heimsins. Þessir ráðamenn líta á M’Bow sem hæfilega ögrun gegn vestrænni nýlendustefnu.
Forstjórinn hefur árum saman hagað sér eins og það sé fyrir neðan virðingu hans að ræða um fjárhagsáætlun Unesco, sem hans hágöfgi hefur sjálfur sett fram. Enda er nú svo komið, að vonlausar reynast tilraunir til að átta sig á bókhaldi stofnunarinnar, sem er í hreinni óreiðu.
Forstjórinn umgengst sendiherra þáttökuríkjanna af stakri fyrirlitningu og er ófáanlegur að tala við þá nema á eigin forsendum. Hann bannar starfsmönnum Unesco að gefa sendiherrunum upplýsingar. Samt eru nærri allar tillögur hans samþykktar orðalaust af meirihlutanum.
Forstjórinn hefur sjúklegan áhuga á leynd. Meira að segja úrklippusafn stofnunarinnar er leyndarskjal, þótt þar sé ekki annað en það, sem hefur birzt um Unesco á prenti. Eftir skjalabrunann mikla í höfuðstöðvunum í vetur hafa grunsemdir manna á þessu sviði aukizt í hans garð.
Forstjórinn hefur látið breyta tveimur, viðáttumiklum hæðum stórhýsis Unesco í París í einkaíbúð fyrir sig. Hann ekur um á sex glæsivögnum af dýrustu gerð. Þegar hann fer til útlanda, hefur hann um sig þrefalt stærri hirð en tíðkast hjá framkvæmdastjórum annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna.
Forstjórinn er lélegur stjórnandi og hefur endurskapað Unesco í sinni mynd. Hann hefur ýtt í burtu hæfileikamönnum og ráðið í staðinn ættingja sína frá Senegal, aðra Senegala, Afríkumenn og Araba. Í því tekur hann ekkert tillit til hæfileika, heldur eingöngu hollustu við sig.
Um nokkurra ára skeið hefur ríkt andrúmsloft grunsemda, fordóma, umburðarleysis og skipulagsleysis í höfuðstöðvum Unesco í París. Þaðan flýja flestir þeir, sem eitthvað geta. Í staðinn eru ráðnir undirmálsmenn, sem ekki skyggja á konunglega tign forstjórans M’Bow.
Ástæðan fyrir því, hve léttilega honum hefur tekist að eyðileggja Unesco, er, að vestræn þáttökuríki hafa litið á stofnunina sem kjaftasamkundu. Þau hafa sent þangað þreytta embættismenn og lágt setta ráðuneytisfulltrúa, er hafa litið á starf sitt sem sumarfrí í París.
Hið bezta, sem komið hefur fyrir Unesco, er tilkynning Bandaríkjanna um, að þau muni yfirgefa stofnunina um næstu áramót. Vonandi framkvæma Bretar hótun sína um að gera slíkt hið sama. Þá er búizt við, að Vestur-Þjóðverjar fylgi í kjölfarið. En hvar er Ísland?
Í dálkum þessum hefur nokkrum sinnum verið hvatt til, að Ísland segi sig úr Unesco og verji menningaraðstoð sinni á annan hátt, svo að 50 aurar af hverri krónu brenni ekki ekki upp í höfuðstöðvunum í París. Nú ætti nóg að vera vitað til að taka mark á þessari ráðleggingu.
Ísland á sæti í nefnd þeirri innan Unesco, sem á að gera tillögur um björgun stofnunarinnar. Það starf er vonlaust frá grunni, því að sjúklingurinn getur ekki læknað sig, þegar um M’Bow, hinn konunglega forstjóra, er að ræða. Eina vonin er, að vestræn ríki hverfi úr samtökunum.
Jónas Kristjánsson.
DV