Konungsbréf

Greinar

Hinn allranáðugasti viðskiptaráðherra hefur ákveðið af sinni alkunnu mildi og góðvild að gefa þegnum sínum frelsi til að stunda milliríkjaviðskipti á sama hátt og innanlandsviðskipti. Af því að við kunnum ekki með frelsi að fara gerist þetta í áföngum á þremur árum.

Aftur lifum við á tímum hinna menntuðu einvalda. Við höfum ekki lengur Danakóng til að bjarga okkur undan þeirri verzlunaráþján, sem íslenzkir framsóknarmenn þess tíma komu upp í samstarfi við hörmangara. Í staðinn höfum við allranáðugasta viðskiptaráðherra.

Í kjallaragrein ráðherrans hér í blaðinu á föstudaginn stóð meðal annars, að konungsbréf hans fæli í sér “róttækustu breytingar á gjaldeyrisreglum landsmanna um þriggja áratuga skeið” eða síðan gjaldeyrisleyfi til innflutnings voru afnumin að mestu í upphafi Viðreisnar.

Samkvæmt konungsbréfinu megum við eftir þrjú ár taka út ótakmarkaðan ferðagjaldeyri eða námsmannagjaldeyri. Við megum þá fjárfesta í útlöndum og útlendingar fjárfesta hér. Arðinn má þá flytja milli landa. Við megum þá taka lán í útlöndum og eiga þar fé á banka.

Það er því í stórum dráttum rétt, að þetta er róttæk breyting. Krónan verður alvörumynt eftir þrjú ár. Að vísu verður hægar sagt en gert að kaupa 5.000 króna hlutabréf í Shell í Rotterdam. Við munum ekki geta haft beint samband við kauphallarmann í Amsterdam.

Til þess að kaupa 5000 króna bréfið þurfum við að fá uppáskriftir á nokkrum stöðum í Reykjavík. Ennfremur þurfum við að nota Seðlabankann sem kauphöll. Það er að vísu gott fyrir bankann, því að þar er mikið af starfsfólki, sem útvega þarf verkefni við hæfi.

Sá er svo munurinn á konungsbréfi hins menntaða einvalds og byltingu Viðreisnar, að þá starfaði stjórnin eftir almennri lýðræðishefð Vesturlanda, þar sem ætlazt er til, að valdið komi að neðan og lýsi sér í lögum, sem meirihluti fulltrúa almennings setur á Alþingi.

Samhliða þessari hefð höfum við komið okkur upp menntuðu einveldi, sem felst í, að ráðherrar gefa út reglugerðir út og suður. Oftast eru þetta góðviljaðar reglugerðir, samdar af fróðum embættismönnum, alveg eins og konungsbréfin í tíð menntaðra Glücksborgara.

Þetta er meira eða minna viðurkennt af Alþingi. Það setur í vaxandi mæli óljós lög, sem eru full af götum, er ráðherrar eiga að fylla upp í með reglugerðum. Alþingi hefur afsalað sér hluta af valdinu að neðan til valdsins að ofan. Konungsbréf fylla skarð laganna.

Gallinn er, að nýr einvaldsherra kemur eftir þennan. Við getum ekki frekar en í gamla daga treyst því, að röð menntaðra einvalda verði endalaus. Það, sem einn herrann færir þegnum sínum, getur annar tekið af þeim. Það er af því að vald konungsbréfa kemur að ofan.

Meira traust hefði verið í góðvilja ráðherrans, ef byltingin hefði fengið að koma að neðan, í lögum frá Alþingi. Nýr einvaldsherra á erfiðara með að fara í kringum lög en að gefa út nýtt konungsbréf gegn gömlu konungsbréfi. Ráðherrar hafa slegizt með reglugerðum.

Íslendingar eru aðeins að nokkru leyti borgarar í vestrænum skilningi. Að hinu leytinu erum við enn þegnar einvaldskonunga. Við fylgjum ekki vestrænni hugmyndafræði um uppruna valdsins nema að nokkru leyti og það meira að segja að minnkandi hluta.

Gjaldeyrisbreytingin er róttæk, að sögn ráðherrans. Við erum orðin svo ónæm fyrir lýðræðishefð, að byltingar gerast í konungsbréfum og ekki í landslögum.

Jónas Kristjánsson

DV