Konungsríki himnanna

Greinar

Konungsríki himnanna er kvikmynd, sem er lofuð fyrir að sýna íslam í réttu ljósi og gagnrýnd fyrir að gera riddarann Saladín að Osama bin Laden fortíðarinnar. Hvort tveggja er að nokkru leyti rétt. Fyrir þúsund árum voru lönd Múhameðs forusturíki siðmenningar heimsins, geisli í miðaldamyrkrinu.

Krossferðir kristinna manna fyrir þúsund árum voru æðiskast manndrápslosta. Af þeirra völdum flæddi blóð í fljótum um Jerúsalem. Enn þann dag í dag minnist þjóðarsál múslíma þessara skelfilegu villimanna og ber þá saman við nýja krossfara, sem sækja að Saladín nútímans, Osama bin Laden.

Sögufölsun kristninnar um krossferðirnar er orðin öllum ljós. Menn furða sig bara á, að bandarísk kvikmynd skuli varpa réttu ljósi á þúsund ára gamla atburði, því að oftar en ella ganga bandarískar kvikmyndir fram í mögnuðum sögufölsunum til að gera annan málstaðinn betri en ella.

Gott dæmi um það er Evrópustríð síðari heimsstyrjaldarinnar. Bandarískar bíómyndir láta eins og Bandaríkjamenn hafi unnið stríðið. Það voru hins vegar Rússar, sem unnu stríðið, eyddu þremur fjórðu af hergögnum og herliði Þjóðverja með ægilegum mannfórnum. Bandaríkin voru smáríki í þeim samanburði.

Þess vegna er réttmætt að halda stóra fagnaðarhátíð í Moskvu í tilefni sextíu ára afmælis sigurs bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni. Þar með er ekki sagt, að allt hafi verið gott við sigurinn, því að hann markaði upphaf járntjaldsins, langvinns klofnings Evrópu í vestrænt og sovézk áhrifasvæði.

Við skulum hafa þessa hluti á hreinu. Þótt Stalín hafi verið vondur karl, vann hann síðari heimsstyrjöldina, en ekki forsetarnir Roosevelt eða Truman. Og kristnu krossfararnir voru ótrúlega vondir karlar, en músliminn Saladín var hins vegar toppurinn á siðmenningu heimsins fyrir þúsund árum.

Krossfarir kristinna voru upphafið að hræðilegu blóðbaði Evrópumanna heima fyrir og í öðrum álfum. Þúsund ára helför Evrópu lauk með friði í álfunni fyrir sextíu árum. Með stofnun Evrópusambands hefur álfan ákveðið að ganga ekki framar á vegi stríðs, heldur á vegi friðar heima og heiman.

Undantekning er Bretland, sem enn lítur á sig sem heimsveldi og er fúst að styðja Bandaríkin við að strá eldi og eimyrju í fjarlægum álfum, eins og krossfarar í bíómyndum.

DV