Tvenns konar kort voru beztu heimildir mínar að “Þúsund og einni þjóðleið”, sem senn kemur út. Fyrst er fræg að telja herforingjaráðskortin frá fyrsta áratug síðustu aldar. Danski sjóherinn mældi þá landið og skráði reiðgötur í smáatriðum. Fagurlega teiknuð kort, sem enn eru notuð. Eini galli þeirra er, að þetta eru hundrað ára gamlar leiðir, sem sumpart hafa hnikazt til. Síðan hafa á fyrsta áratug þessarar aldar verið gefin út fjölmörg útivistarkort héraða. Þar eru sýndar göngu- og reiðleiðir nútímans. Allar þessar leiðir og fleiri eru í bókinni, svo og í stafrænu GPS-formi á tölvudiski, sem fylgir.