Kortlagning lífskjara

Greinar

Danir hafa að meðaltali 97% hærra tímakaup en Íslendingar, samkvæmt skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Með því að vinna 50 tíma á viku í stað 39 og með því að hafa fleiri fyrirvinnur í hverri fjölskyldu, minnka Íslendingar muninn í 39% hærri fjölskyldutekjur í Danmörku.

Þegar búið er að taka tillit til hærri skatta í Danmörku, eru ráðstöfunartekjur orðnar 15% hærri í Danmörku en hér á landi. Þannig gefur Þjóðhagsstofnun kost á þrenns konar tölum um kjaramun Dana og Íslendinga, 97%, 39% og 15%, allt eftir því, hvernig á málið er litið.

Fólk lítur misjöfnun augum á lengd vinnutíma. Ef við gefum okkur, að styttri vinnutími og lengri frítími séu almenningi meira virði en langur vinnutími, en jafngildi þó ekki að fullu betri lífskjörum, má til dæmis meta styttri vinnutíma Dana að hálfu til betri lífskjara.

Fólk lítur líka misjöfnun augum á skatta og samneyzlu á vegum opinberra aðila. Ef við gefum okkur, að félagsleg þjónusta sé betri en engin, en nýtist þó ekki að fullu í betri lífskjörum, er heldur ekki fráleitt að meta meiri samneyzlu í Danmörku að hálfu til betri lífskjara.

Með slíkum slumpareikningi má gizka á, að kjaramunur Dana og Íslendinga sé mitt á milli 97% og 15%, það er að segja 56%. Þetta er gífurlegur munur og hefur á undanförnum árum freistað margra til að koma sér fyrir í Danmörku og öðrum löndum, sem hafa svipuð lífskjör.

Auðvitað lítur kjaramismunur Danmerkur og Íslands stærst út í augum þeirra, sem mesta áherzlu leggja á stuttan vinnutíma og mikla opinbera velferð, en minnst í augum hinna, sem sætta sig vel við langan vinnudag og minni velferð af hálfu hins opinbera.

Það verður að vera keppikefli okkar að reyna að brúa þennan mun milli okkar og nánasta umhverfis okkar til þess að tryggja betur framtíð sjálfstæðs þjóðfélags á Íslandi. Slíkt er þó ekki hægt að gera með pennastriki, því að mikill munur er á framleiðni okkar og Dana.

Hlutur launa í landsframleiðslu er 63% hér á landi, nákvæmlega eins og í Danmörku og örlitlu hærri en meðaltalið á Vesturlöndum, sem er 61%. Ekki er því hægt að segja, að óeðlilega mikill hluti verðmætasköpunar á Íslandi renni til annars en launagreiðslna.

Lágu launin á Íslandi endurspegla því lága framleiðni á Íslandi. Þessi lága framleiðni stafar ekki af leti Íslendinga til vinnu, heldur af ýmsum aðstæðum, sem teljast mega séríslenzkar. Við leggjum til dæmis of mikla áherzlu á atvinnuvegi, sem gefa lítið af sér.

Við höfum til dæmis allt of margt starfsfólk í landbúnaði og raunar hlutfallslega miklu fleira en er í löndum, sem búa við betri skilyrði til landbúnaðar. Í þessa stórfelldu landbúnaðarhugsjón okkar fórnum við á bilinu frá tíu til tuttugu milljörðum króna á ári hverju.

Í öðru lagi er fámenni á Íslandi slíkt, að víða í atvinnulífinu hefur myndazt fáokun og einokun. Við slíkar aðstæður dregur skortur á samkeppni úr rekstrarhagkvæmni fyrirtækja og stuðlar að lakari lífskjörum á Íslandi en er í löndum, þar sem samkeppni er meiri.

Þriðja ástæðan fyrir lágri framleiðni á vinnustund er hin sérízlenzka yfirvinnuhefð. Hún er eins konar vítahringur, sem erfitt er að losna úr. Einstök dæmi benda til, að dagsafköst minnki ekki, þótt yfirvinna sé lögð niður. Dagsafköst séu lítt eða ekki háð lengd vinnutíma.

Þetta eru þrjú atriði af ýmsum, sem valda lágri framleiðni og lélegum kjörum okkar. Engin öfl í landinu sinna enn því pólitíska verkefni að lagfæra slík atriði.

Jónas Kristjánsson

DV