MORGUNBLAÐIÐ SAGÐI í gær frá nefnd, sem er að meta áhættu af ýmsum uppákomum á höfuðborgarsvæðinu, svo sem veðurofsa og stórflóðum, sem hafa verið í fréttum undanfarna mánuði vegna flóðbylgjunnar við Indónesíu og fellibylsins í New Orleans. Í grein Moggans er sérstaklega vitnað til fellibylsins.
Á SAMA TÍMA FRÉTTUM við af nýjum aðgerðum erlendis til að mæta stórflóðum. Kaupmannahöfn er að hækka teina nýrrar neðanjarðarbrautar, hafnarborgirnar Hamborg og Rotterdam eru að efla flóðavarnir við höfnina, Sussex og Norfolk á Englandi eru að undirbúa færslu mannabyggðar frá ströndinni.
HÉR Á LANDI EIGUM VIÐ að minnast Básendaflóðsins fyrir 200 árum, þegar sjór gekk yfir Reykjavík um Kolbeinsstamýrina. Það var áður en mannana verk, svo sem aukinn útblástur koltvísýrings jók hættu á ofsa í veðurfari og hafstraumum, svo sem hefur skýrast komið í ljós í flóðinu í New Orleans.
ÞRÁTT FYRIR ALLT ÞETTA er í tízku hér að hanna alls konar mannvirki úti í sjó. Lengi hafa verið tillögur um að byggja flugvöll úti á skerjum í Skerjafirði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til fjölmenna byggð úti í Hólmanum og öðrum skerjum. Verkfræðingur hefur lengt byggðina út í yztu sker.
HUGMYND VERKFRÆÐINGSINS er róttækust. Hún gerir ráð fyrir, að landið verði þanið vestur fyrir Seltjarnarnes um Kerlingasker, Jörundaborða og Leiruboða langt vestur fyrir Álftanes. Þar úti á rúmsjó á að byggja alþjóðlegan flugvöll og járnbraut, auðvitað auk iðnaðarhverfa og íbúðabyggðar.
ALLAR ÞESSAR HUGMYNDIR um mannvirki í útskerjum eru botnlaust rugl og standast ekki áhættumat. Athyglisvert er, að aðdáendur flugvallar í Skerjafirði og aðdáendur byggðar úti í sjó og enn síður verkfræðingur yztuskerjastefnu hafa fjallað neitt að ráði um hættu af fárviðri og sjávargangi.
GOTT ER AÐ ÁHÆTTUNEFNDIN, sem Mogginn talar um, taki slíkar hugmyndir fyrir og afgreiði þær út af borðinu áður en vonlausir opokapólitíkusar gleypa við þeim og sporðrenna.
DV