Kosið um klæði landsins

Greinar

Í dag kýs fólk ekki bara um stjórn heimabyggða sinna, heldur tekur það þátt í annarri kosningu, sem ekki skiptir minna máli fyrir framtíð lands og þjóðar. Það er kosningin um að klæða landið á nýjan leik með því að kaupa eða kaupa ekki merki 50 ára afmælis Landgræðslusjóðs.

Sjóðurinn er jafngamall lýðveldinu. Hann er tákn þess, að unga lýðveldið vildi fyrir hálfri öld gera landgræðslu að einkennisverkefni sínu. Í fimm áratugi hefur verið unnið af krafti að þessu verkefni, án þess þó að þjóðin hafi náð undirtökunum í baráttunni gegn eyðingaröflum.

Margt hefur verið gert á þessum árum og er skemmst að minnast átaksins í tengslum við ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar. Forseti Íslands hefur gert þetta að embættismáli sínu, svo að við erum ítrekað áminnt um að láta ekki deigan síga við að klæða landið að nýju.

Enn er landeyðing samt meiri á Íslandi en í flestum, ef ekki öllum löndum Evrópu. Hefur ástandinu hér nokkrum sinnum verið líkt við löndin sunnan við Sahara, þar sem eyðimörkin sækir fram jafnt og þétt. Hér tapast um 1000 hektarar gróðurs á hverju ári.

Frá landnámsöld hafa fundizt leifar kolagerðar á Kili. Það sannar sannleiksgildi fornra bóka, þar sem segir, að landið hafi þá verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Á þeim tíma hafa Norðurland og Suðurland meira að segja verið vaxin saman með grænu viðarbelti yfir Kjöl.

Fyrir og eftir landnám hafa náttúruöflin leikið lausum hala. Breytingin við landnám fólst í, að þjóðin gekk í lið með eyðingaröflunum og réð úrslitum um, að skógurinn hvarf að mestu og annar gróður landsins minnkaði um helming. Þetta er skuld þjóðarinnar við landið sitt.

Við getum fyrirgefið forfeðrum okkar, sem urðu að bjarga sér á erfiðum öldum í þjóðarsögunni. Við getum hins vegar ekki veitt okkur sjálfum aflausn, því að áratugum saman hefur þjóðin verið nógu rík til að snúa vörn í sókn, en hefur ekki náð því markmiði enn.

Sá áfangi hefur ekki enn náðst, að viðkvæm móbergssvæði landsins í óbyggðum Gullbringusýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Þingeyjarsýslna hafi verið friðuð fyrir ágangi sauðfjár, sem lengi hefur verið mesti vágesturinn á svæðum, þar sem hætt er við uppblæstri.

Enn á þessu vori eru eyðingaröfl í Þingeyjarsýslu að hleypa sauðfé á afréttir Mývetninga til þess að taka þátt í að offramleiða dilkakjöt. Enn tekur Landgræðslan þátt í að heimila slíka framleiðslu, sem er eins lítið vistvæn og hugsazt getur, miðað við ástand landsins.

Enn er stjórn landgræðslumála komið fyrir í sjálfu landeyðingarráðuneyti landbúnaðarmála. Enn eru margir, er líta á landgræðslu sem eins konar framleiðslu á beitilandi. Enn ver þjóðin mörgum milljörðum á hverju einasta ári til að stuðla að ofbeit í landinu.

Það eru ekki eldgos og árferði, sem bera ábyrgð á þessari hnignun, því að fyrir landnám gekk líka mikið á í náttúrusögunni. Það erum við sjálf, sem berum ábyrgð á þessu, af því að við verjum enn þann dag í dag meiri fjármunum og orku til landeyðingar en til landverndar.

Einhvern tíma rís sá dagur, að óbyggðir landsins verði aftur eins blómlegar og Hornstrandir eru orðnar eftir brottför sauðfjár. Það verða aðrar kynslóðir, sem munu njóta þess. Okkar kynslóðir geta hins vegar haft sóma af því að hafa snúið vörn í sókn. Ef þær vilja.

Með því að kaupa barmmerkið í dag leggjum við lóð okkar á vogarskálina og flýtum fyrir þeim degi, að meira vinnist en tapist í baráttunni um að klæða landið.

Jónas Kristjánsson

DV