Kosningafurða í Flórída

Greinar

Ekki verður gæfulegt fyrir George Bush að verða forseti Bandaríkjanna út á framkvæmd kosninganna í Florida undir stjórn bróður hans. Næsta öruggt er, að forgörðum hafa farið þúsundir og ef til vill tugþúsundir atkvæða, sem ætluð voru Al Gore í einni sýslunni.

Pat Buchanan, einn frambjóðenda til forseta, hefur sjálfur viðurkennt, að Gore eigi mörg atkvæði, sem voru sett á Buchanan í Palm Beach sýslu. Tölfræðin sýnir, að Buchanan fékk þar talin meira en tíu sinnum fleiri atkvæði hlutfallslega en hann fékk í öðrum sýslum.

Kjörseðillinn í þessari sýslu var af ólöglegri gerð, sem leiddi til þess, að aftan við reit Gore voru tveir hringir, sá efri fyrir atkvæði greidd Buchanan og sá neðri fyrir atkvæði greidd Gore. Ör, sem vísaði á neðri reitinn, átti að leiðbeina kjósendum Gore á réttan reit.

Verra er, að meira en nítján þúsund atkvæði voru lýst ógild í þessari sömu sýslu, af því að gatað hafði verið við nöfn Gore og Buchanan í senn. Demókratar segja, að þessi tvígötun hafi verið tæknileg villa, enda hafi hún lítt komið fram í kosningunni um þingmenn í sömu sýslu.

Margar fleiri ásakanir hafa komið fram um vafasama framkvæmd kosninganna í Palm Beach, sem er fremur fátækt hverfi, þar sem eru margir svertingjar og stuðningur við Gore er eindreginn. Stutt er í grunsemdir um, að tæknivillurnar hafi verið viljandi framdar.

Ekki er hægt að halda fram, að kjósendur í þessu hverfi séu vitgrennri en kjósendur í öðrum fátækrahverfum, enda höfðu repúblikanar síðdegis í gær ekki komið fram með sannfærandi mótrök gegn ásökunum um furður í framkvæmd og talningu í þessari sýslu.

Ef kosningar og talning í Palm Beach hefðu farið fram með eðlilegum hætti, væri Al Gore núna yfirlýstur rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna. Óhlutdrægir aðilar eru sammála um, að óreiðan í framkvæmd kosninganna í Palm Beach hafi fyrst og fremst komið niður á Gore.

Ekki verður séð, að til lengdar verði hægt að neita að handtelja í þremur sýslum Florida og kjósa upp á nýtt í Palm Beach. Endurtalningin hefur verið framkvæmd í vélum, sem samkvæmt sumum fréttum eiga það til að hlaupa yfir göt, ef pappírsrifið hangir í gatinu.

Að öðrum kosti verður litið svo á, að Bush-fjölskyldan sé mafía, sem hafi stolið forsetakosningunum með því að misnota aðstöðu ríkisstjórans og þáverandi formanns kjörstjórnar í Florida, Jeb Bush, bróður frambjóðandans. Slíkt getur tæpast gerzt í Bandaríkjunum árið 2000.

Þegar eftir var að endurtelja aftur í Palm Beach og um 2000 utankjörstaðaatkvæði, hafði George Bush 327 atkvæði umfram Al Gore í Florida. Þessar lágu tölur blikna í samanburði við þær þúsundir eða tugþúsundir atkvæða, sem fóru forgörðum í Palm Beach sýslu.

Framkvæmd kosninganna í Florida er gífurlegt áfall fyrir Bandaríkin. Þau senda eftirlitsmenn til að fylgjast með kosningum víða um heim, en geta svo ekki sjálf lýst yfir réttu kjöri Al Gore sem forseta, af því að atkvæðum var viljandi eða óviljandi stolið af honum í Florida.

Engin sátt getur orðið í Bandaríkjunum um niðurstöðu, sem lætur ruglið í Palm Beach gilda sem niðurstöðu forsetakosninganna. Þess vegna verður að kjósa aftur í þeirri sýslu, þótt óhlutdrægir aðilar átti sig á, að efnislega hafa Bandaríkjamenn þegar valið Gore.

Það er ávísun á öngþveiti, ef ráðamenn í Florida ætla að reyna að þverskallast við leiðréttingu mála og hindra þannig, að þjóðarviljinn nái fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV