Seðlabankinn heldur niðri gengi krónunnar með því að kaupa valútu. Þannig heldur hann niðri lífskjörum og tryggir jákvæðan jöfnuð á viðskiptum við útlönd. Ísland er sjálfbært meðan það ástand varir. Stefna bankans leiðir jafnframt til hörmunga lítilmagnans, kemur fólki á vonarvöl. Afsökunin er auðvitað sú, að mikilvægast sé að koma á jafnvægi í samskiptum Íslands og viðskiptaríkjanna. Velferð verði að sitja á hakanum á meðan. Þannig er krónan bæði kostur og galli. Hún er galli, því að hún olli hruni og heldur niðri lífskjörum. Hún er kostur, því að hún sendir þjóðinni reikninginn.