Kraftaverkið

Greinar

Meðan fótbolti sundrar þjóðum Evrópu samþykktu landsfeður 25 ríkja í Evrópu stjórnarskrá álfunnar í tæplega 350 greinum. Meðan fótboltabullur með málaða þjóðfánaliti í andlitinu drekktu þjóðsöngvum keppninauta í bauli, ákváðu landsfeður evrópskan forseta, utanríkisráðherra og ríkissaksóknara.

Meðan enskir drykkjusjúklingar urðu sér eins og venjulega til skammar á götum í Portúgal leystu landsfeðurnir erfiða hnúta og höfnuðu kröfu páfans um að geta kristinnar trúar í stjórnarskránni. Síðast en ekki sízt afgreiddu þeir vægi atkvæða milli ríkja og fólksfjölda í evrópskum kosningum.

Landsfeður í Evrópu eru komnir langt fram úr lýðnum, sem baular á þjóðsöngva annarra ríkja og drekkur frá sér ráð og rænu á opinberum vettvangi. Landsfeðurnir hafa sameinað álfu, sem vill ekki sameinast. Síðan eiga þeir eftir að selja fótboltalýðnum og öðrum almenningi niðurstöðuna.

Næsta vor tekur evrópska stjórnarskráin gildi, að vísu ekki fyrir öll lönd. Bretar og Danir munu líklega fella plaggið í þjóðaratkvæðagreiðslum, alveg eins og þeir vildu ekki vera með í evrunni. Evrópusinnuðu ríkin með Frakkland og Þýzkaland í fararbroddi munu staðfesta stjórnarskrána.

Tveggja hraða Evrópa fær aukna staðfestingu. Fremst fara ríkin, sem taka allan pakkann. Eftir fylgja nokkur ríki, sem spyrna við fótum og vilja varðveita leifar af fullveldi sínu. Norðmenn munu fyrr eða síðar stökkva í þann flokk og skilja Íslendinga og Serba eftir utan Evrópusambandsins.

Lausn fannst á öllum ágreiningsefnum evrópsku leiðtoganna nema nafn nýs framkvæmdastjóra. Það kemur í lok mánaðarins. Afrekið vann Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, sem tók fyrir hálfu ári við formennsku í Evrópu af Ítalanum Silvio Berlusconi, sem hafði klúðrað dæminu fyrir hálfu ári.

Ahern er eindregin andstæða leiðtoga á borð við Berlusconi og Davíð Oddsson, sem ekki finna sættir, heldur snapa fæting við allt og alla. Það eru menn á borð við Ahern, sem hafa með seiglu framleitt evrópskt samstarf undanfarna áratugi og komið því á blússandi ferð sem efnahagsundur heimsins.

Gallinn við þessa frægðarsiglingu Evrópusambandsins er, að fólkið í aðildarríkjum þess skilur alls ekki, hvað því hefur verið fært með sameiginlegri mynt, sameiginlegum markaði og ekki sízt sameiginlegum reglugerðum, sem almennt eru litnar illu auga af fótboltabullum og öðrum almenningi í Evrópu.

Evrópusambandið á nú aðeins eftir einn þröskuld. Það á eftir að selja fólki þá staðreynd, að sambandið er kraftaverk, sem hefur fært álfunni almenna velmegun og mun gera það áfram.

Jónas Kristjánsson

DV