Krákárbotnar

Frá Stóru-Flesju í Suðurárbotnum til Álftagerðis við Mývatn.

Þetta er falleg reiðleið með mikilúðlegt Sellandafjall að austanverðu og Kráká að vestanverðu. Fyrst er farið um mikið foksvæði, sem reynt hefur verið að græða upp með girðingum og sáningu. Að sunnan berst foksandur frá Ódáða- og Suðurárhrauni og eyðir mólendi við upptök Krákár. Uppgræðslusvæðin eru Katlar, Hrútatorfur og Kolatorfur og liggja þau á víðáttumiklu mólendi þar sem uppblástur hefur verið verulegur. Grassáningar á mela hafa skilað góðum árangri og auðveldað landnám plantna eins og víðis, krækilyngs og annarra mólendistegunda. Gróður eykst smám saman og er orðinn hlýlegur, þegar komið er vestur yfir Kráká í Hrútavíðisel.

Förum frá Stóru-Flesju í 400 metra hæð hálfan kílómetra upp með Suðurá að vegarslóða til norðurs frá ánni. Við fylgjum þeim slóða norðaustur um Botnaflesju, unz við komum að hliðarslóða norðaustur á Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Við fylgjum meginleiðinni norðvestur í Krákárbotna og síðan norður með Sellandafjalli að vestan. Við höldum beint áfram um Stórhólsmýri og Sellandagróf, síðan um Sellönd og Sellandaás. Skömmu áður en slóðin beygir til austurs förum við í vestur yfir Kráká að eyðibýlinu Hrútavíðiseli og síðan áfram um Baldursheimsheiði að Baldursheimi. Förum þar stuttan kafla með þjóðvegi 849 og síðan til norðurs með Kráká að Litlu-Strönd. Þar förum við á göngubrú yfir Kráká og síðan norður með ánni að austanverðu alla leið að þjóðvegi 1 við Mývatn, rétt austan Álftagerðis.

34,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.
Skútustaðir: N65 34.050 W17 02.200.

Nálægir ferlar: Suðurá, Suðurárbotnar.
Nálægar leiðir: Sandfell, Hrísheimar, Kráká, Biskupaleið, Kerlingardyngja, Suðurárhraun, Íshólsvatn, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson