Vottur af umræðu hefur orðið á vefnum um leiðara DV fyrir viku, þar sem gagnrýnd var kranablaðamennska í sumum fjölmiðlum og froðusnakk í öðrum. Kveinuðu sumir þeirra, sem töldu að sér eða sínum vegið, og er það vel. En fáir skildu sjálf hugtökin, sem rædd voru.
Einn kjaftaskurinn vissi ekki, hvernig sú regla er hingað komin, að fréttamaður afli fleiri en einnar sjálfstæðrar heimildar að frétt. Hann gaf í skyn, að það gæti verið frá Bild Zeitung. Vita þó allir, að þetta er bandarísk regla stórblaða, sem frægust varð á Washington Post.
Með Watergate-málinu urðu þáttaskil í vestrænni fréttamennsku. Á dagblöðum hafa verið teknar upp nýjar verklagsreglur, þar sem þær voru ekki til áður, einkum ættaðar frá bandarískum stórblöðum. Þessar reglur eiga að tryggja, að fréttir séu eins réttar og kostur er.
Raunar kom í ljós, að kjaftaskurinn lagði ekki mikið upp úr verklagsreglum, enda hafði hann ekki verið langlífur í fréttamennskunni. Það var ekki verklagið, sem hann var einkum ósáttur við, heldur umræðuefnin, sem oft snertu einkalíf fólks of mikið að hans mati.
Raunar er það eðlilegra og nærtækara umræðuefni, hvort fjölmiðlar gerist of persónulegir, heldur en hvort sjálft verklag þeirra sé í lagi. Það er sígilt vandamál, hvenær einkamálin enda og opinberu málin byrja, en seint verða stórglæpir taldir vera einkamál.
Kranablaðamennska er hugtak, sem einn pólitíski vefmiðillinn skilur ekki. Hún felst í, að fjölmiðill fer að því leyti ekki eftir verklagsreglum, að hann skrúfar frá einu sjónarmiði í fréttaflutningi, án þess að leita annarra sjónarmiða, ef ætla má, að þau séu til.
Þessi regla gildir fyrir fréttamanninn, en ekki álitsgjafann. Sá síðarnefndi getur dregið misjöfn sjónarmið inn í röksemdafærslu sína, en þarf það ekki, enda er hann bara álitsgjafi. Stundum telja álitsgjafar sum sjónarmið svo vitlaus, að ekki þurfi að ræða þau.
Góðir fjölmiðlar reyna að gæta jafnvægis í skoðunum með því að draga inn álitsgjafa úr ýmsum áttum. DV birtir til dæmis daglega skoðanir með og móti ákveðinni fullyrðingu í þjóðmálaumræðunni. Í kjallaragreinum blaðsins birtast iðulega svargreinar við leiðurum þess.
Það er góð regla dagblaða að skilja skoðanir frá fréttum, svo að lesendur viti að hverju þeir ganga á hverjum stað. Í fréttahlutanum eiga lesendur að geta treyst því, að ekki sé skrúfað frá krana eins sjónarmiðs, nema einhver málsaðili hafi ekki viljað láta ná í sig.
Frá þessari reglu hefur töluvert verið vikið á sumum dagblöðum, en einkum þó í sjónvarpi, sem byggir allt of mikið á einhliða viðtölum. Ríkissjónvarpið leyfir til dæmis útgerðarmönnum að kosta heilan framhaldsþátt um ágæti núverandi gjafakvóta í sjávarútvegi.
DV telur líka ástæðu til að vara við efnistökum ýmissa vinsælla kjaftaska í sjónvarpi, sem leika eins konar millibils-hlutverk skemmtikrafta og álitsgjafa. Þeir fara sjaldnast eftir leikreglum á borð við þær, sem góð dagblöð víða um heim og hér á landi hafa tamið sér.
Sérstaklega er varhugavert, þegar slíkir kjaftaskar byrja að herma eftir pokaprestum og hefja hræsnissöng um tillitsleysi fjölmiðla til að magna kveinstafi viðmælenda sinna. Snöktandi Nixon í Watergate-málinu hefði verið fínn viðmælandi íslenzkra kjaftaska.
Fjölmiðlar þurfa í senn að hafa gott verklag, vera ágengir og hafa bein í nefinu til að baka sér óbeit margra, ekki sízt smárra og stórra kónga í samfélaginu.
Jónas Kristjánsson
DV