Kredda Verzlunarráðs.

Greinar

Sumar kreddur eru svo grunnmúraðar, að fólk étur þær hugsunarlaust upp hvert eftir öðru. Slíkar hugsanagildrur eru ekki síður í efnahagsmálum en á öðrum sviðum. Fyrir helgina datt Verzlunarráð Íslands í eina slíka. Í tillögum þess um næstu skref í efnahagsmálum segir meðal annars:

“Innlendur landbúnaður getur ekki keppt við innflutning landbúnaðarvara að óbreyttu styrkjakerfi í nágrannalöndunum. Hins vegar ætti innanlandsframleiðslan ekki að vera meiri en svo, að hún fullnægi innlendri eftirspurn í góðu árferði, og ekki komi til útflutnings, heldur verði sveiflur í árferði jafnaðar með innflutningi.”

Hér á landi deila menn þannig um, hvort innlend framleiðsla landbúnaðarafurða eigi að fullnægja innlendri eftirspurn rúmlega eða tæplega. Verzlunarráðið virðist vera á síðari skoðuninni. En hvorki það né aðrir rökstyðja, af hverju slík framleiðsla eigi yfirleitt að miðast við innlendan markað.

Ekki dettur fólki í hug, að sjávarútveginn eigi að miða við innlendan markað. Hann er rekinn sem stóriðja, er keppir við niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa. Markaðurinn innanlands skiptir sjávarútveginn litlu máli. Heimurinn er hans vettvangur.

Auðvitað fögnum við því, að í Bandaríkjunum og víðar skuli þarlend verzlunarráð og aðrir áhrifaaðilar ekki hafa þá stefnu, að þar skuli sjávarútvegurinn tæplega fullnægja innlendri eftirspurn. Þá sætum við uppi með óseljanlegan fisk og búið efnahagsspil.

Ef við höfum á boðstólum vöru eins og fisk, sem getur keppt við niðurgreiddan fisk annarra þjóða, viljum við ekki, að þær loki fyrir okkar fisk, heldur kaupi hann. Ef við svo hins vegar höfum ósamkeppnishæfar landbúnaðarvörur, vill Verzlunarráðið halda lokuðum höfnum hér.

Taka má fleiri dæmi en sjávarútveg og landbúnað. Ekki dettur neinum í hug að framleiða hér á landi bíla eða flugvélar, korn eða ávexti, er ’’fullnægi innlendri eftirspurn í góðu árferði, og ekki komi til útflutnings”, svo notað sé hugsunarlaust orðalag Verzlunarráðs.

Mörg ríki niðurgreiða sumar afurðir sínar, ekki bara landbúnaðarvörur. Evrópuríki greiða niður skip og bíla til að verjast samkeppni Japana og flugvélar og landbúnaðarvörur til að verjast samkeppni Bandaríkjamanna. En í öllum slíkum tilvikum er haldið í fortíðina, ekki horft til framtíðarinnar.

Telur Verzlunarráðið ef til vill ekki, að það mundi bæta lífskjör þjóðarinnar, draga úr ófriði á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni okkar, ef allar landbúnaðarafurðir væru fáanlegar hér á samkeppnishæfu heimsmarkaðsverði í stað núverandi einokunarverðs?

Verzlunarráð ættu að vera fyrstu stofnanir til að átta sig á, að engu ríki er nauðsynlegt að vernda innlenda framleiðslu fyrir niðurgreiddum innflutningi. Niðurgreiðslur á alþjóðavettvangi sýna, að um er að ræða offramleidda vöru, sem skynsamt fólk á ekki að búa til.

Verzlunarráð ættu líka að vera fyrstu stofnanir til að átta sig á, að viðmiðun við innlendan markað er þáttur í innilokunarstefnu, sem allar viðkomandi þjóðir tapa á, bæði þær, sem fá ekki að selja og fá ekki að kaupa.

Margt er viturlegt í hinum nýju tillögum Verzlunarráðs Íslands um ný skref í efnahagmálum. En hugmyndin um, að innlendan landbúnað skuli miða við tæpa innanlandsnotkun, er ekkert annað en hugsunarlaus endurtekning gamallar kreddu, sem of lengi hefur ráðið ríkjum.

Jónas Kristjánsson.

DV