Hálfrar aldar samfelldu blómaskeiði viðskiptafrelsis og framfara í heiminum fer senn að ljúka. Arftaki Efnahags- og þróunarstofnunarinnar, Heimsviðskipta-stofnun, er orðin óstarfhæf. Verndarsinnar hafa tekið völdin beggja vegna Atlantshafsins og í þriðja heiminum.
Heimsviðskipta-stofnunin er klofin í herðar niður í deilum um nýjan framkvæmdastjóra. Evrópusambandið er farið að hafa að engu úrskurði dómnefnda stofnunarinnar og Bandaríkin eru farin að innleiða einhliða refsitolla. Verndarsinnar sjá “dumping” í hverju horni.
Fyrir einni öld lifðu forfeður okkar á ofanverðu blómaskeiði frelsis og framfara. Allt frá lokum Napóleonsstríða fram til fyrri heimsstyrjaldarinnar ríkti meira eða minna frelsi á flutningi fólks og varnings milli landa og allar þjóðir græddu á tá og fingri.
Ísland komst inn í lokaskeið þessa tímabils upp úr aldamótunum, þegar erlent fé flæddi inn í landið, meira að segja erlendar landbúnaðarafurðir. Þessu mikla blómaskeiði Íslandssögunnar lauk ekki fyrr en með kreppunni, er herjaði hér sem annars staðar.
Ríkisrekin heimsstyrjöldin fyrri og gríðarlegur kostnaður hennar batt enda á blómaskeiðið og leiddi til kreppunnar miklu, sem leiddi til ríkisrekinnar heimsstyrjaldarinnar síðari. Kreppuaðgerðirnar voru svo afnumdar og efnt í nýtt blómaskeið fyrir hálfri öld.
Þegar forvera Heimsviðskipta-stofnunarinnar var komið á fót fyrir hálfri öld, mundu menn styrjaldirnar miklu og kreppuna miklu milli þeirra. Þeir voru vopnaðir nýrri hagfræðiþekkingu og vissu, að þjóðir græddu á að láta frelsi leysa verndarstefnu af hólmi.
Formúlan er einföld og segir okkur, að meiri þjóðarhagsmunir felist í lágu vöruverði en háu. Mikilvægara sé að tryggja fólki og fyrirtækjum aðgang að ódýrri vöru heldur en að tryggja sérhagsmuni fyrirtækja og atvinnugreina, sem vilja forðast erlenda samkeppni.
Fyrra hagvaxtarskeiðið byggðist á þeirri uppgötvun Breta, að þeir græddu á því að lækka tolla og hömlur einhliða. Með því lækkuðu þeir vöruverð til fyrirtækja og heimila og bjuggu til lífskjör og gróða, sem voru hornsteinn að gífurlegri útþenslu Bretaveldis.
Þessi þekking glataðist í styrjöldunum og kreppunni og er aftur að glatast núna, þegar stjórnmálaflokkarnir eru í ört vaxandi mæli fjármagnaðir af sérhagsmunum, sem vilja láta vernda sig fyrir umheiminum. Við erum því að sjá fyrir endann á blómaskeiði frelsisins.
Í rauninni haga ríki sér eins og gróði eins sé annars tap. Þau láta eins og viðskiptafrelsi sé kaup kaups, þar sem þú fórnar tollum og hömlum gegn því að mótaðilinn fórni tollum og hömlum. Þannig kaupa menn og selja viðskiptafrelsi, sem í sjálfu sér er ókeypis auðlind.
Almenningur hefur aldrei skilið viðskiptafrelsi. Þess vegna hefur verið auðvelt fyrir stjórnmálamenn að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni í viðskiptalífinu. Með aukinni fjármögnun sérhagsmuna á kosningavélum stjórnmálaflokka magnast vítahringurinn.
Evrópusambandið hefur alltaf verið verndarstofnun, sem vill frelsi á stórum innri markaði, en hömlur á samkeppni að utan. Bandaríkin eru á hraðferð til haftastefnunnar að undirlagi þingsins, enda eru þingmenn meira eða minna kostaðir af þröngum sérhagsmunum.
Heimsviðskipta-stofnunin er höfuðlaus og ræður ekki við vítahringinn. Þess vegna siglum við hraðbyri að skerjunum, sem leiddu til heimskreppunnar miklu.
Jónas Kristjánsson
DV