Klofningurinn í Alþýðusambandinu endurspeglar vaxandi mismun á hagsmunum fólks í stéttarfélögum landsins, sem leiðir af vaxandi stéttaskiptingu í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Sumir eru með í þjóðfélagsbreytingunum, en aðrir eru í vaxandi mæli að verða útundan.
Að baki forustu Alþýðusambandsins eru einkum þrjú sjónarmið. Eitt þeirra er tiltölulega einfalt og fámennt, en áhrifamikið, af því að það varðar einkum forustufólkið. Það eru hagsmunir yfirstéttarinnar í samtökunum, sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða og hafa það gott.
Þetta fólk hefur mikla hagsmuni af því, að þjóðarsáttir séu gerðar og haldizt. Þetta er atvinnufólk í félagsmálum, sem sómir sér eins vel í bankastjórastólum og í forsetastóli Alþýðusambandsins. Það er vant að höndla peninga í lífeyrissjóðum og er hluti yfirstéttar landsins.
Traustasta stuðningsfólk þessarar greinar yfirstéttarinnar er það, sem á sínum tíma var uppnefnt sem uppmælingaraðall. Það er að vísu of þröng skilgreining á hópnum, sem felur í sér alla þá, sem hafa nokkuð góð lífskjör, þrátt fyrir tiltölulega lága kauptaxta.
Þetta fólk er hluti af velmegunarþjóðfélaginu. Það ákveður að taka hluta af þeim 1.500 sætum, sem bjóðast skyndilega í spánnýjum Bahamaferðum. Það spókar sig á götum Dyflinnar og kemur heim með troðnar ferðatöskur. Það tekur virkan þátt í lífsgæðakapphlaupinu.
Við vitum, að þetta er fjölmennur hópur, þótt kauptaxtar séu lágir hjá flestum stéttarfélögum. Við sjáum af neyzluvenjum fólks, að meirihluti þjóðarinnar býr við ljúfan kost, þótt kauptaxtar séu hér á landi að meðaltali helmingi lægri en hliðstæðir taxtar í Danmörku.
Fólk nær velmegun á ýmsan hátt, sumt með uppmælingu og annað með aðgangi að mikilli aukavinnu. Enn aðrir gera það með því að fara á námskeið eða læra eitthvað, sem gerir vinnu þeirra verðmætari. Algengast er að fólk geri það með því að hjón vinni bæði úti.
Þriðji hópurinn hefur sætt rýrnandi lífskjörum, en styður samt forustu Alþýðusambandsins, af því að hann vill ekki tapa jólauppbót og missa tekjur í verkföllum eða skæruhernaði. Þetta fólk vill ekki rugga bátnum og vonar, að samdráttartímabil undanfarinna ára sé á enda.
Sumt af þessu fólki hefur sætt minni tekjum vegna samdráttar í greiðslum, sem eru umfram bera kauptaxta. Í kreppunni hafa fyrirtæki getað sparað sér útgjöld með því að draga úr greiðslum af þessu tagi og raunar komizt þannig hjá að segja upp fólki.
Fólk, sem lendir í þessum aðstæðum, bregzt við á tvennan hátt. Sumir beygja sig og hugsa sem svo, að betra sé að sæta minni tekjum en að missa vinnu, enda þurfi fyrirtækin að lifa, svo að þjóðarhagur hrynji ekki. Aðrir vilja aðgerðir til að endurheimta lífskjörin.
Þessi fjórði og síðasti hópur er sá, sem ræður því, að nokkur stærstu verkamannafélög landsins hafa sagt eða eru að segja upp kjarasamningum. Í þessum félögum er einmitt flest fólkið, sem er í þriðja og fjórða hópi og sér stöðu sína versna, meðan aðrir gera það nokkuð gott.
Hér verður ekki gerð tilraun til að meta, hversu fjölmennir séu hinir einstöku hópar. Erfitt er að spá í hug þeirra, sem hafa sig lítið í frammi og taka ekki þátt í atkvæðagreiðslum. Hitt er ljóst, að klofningurinn veldur því, að ófriðlegt er um sinn á vinnumarkaðinum.
Herkostnaður kreppunnar felst einkum í aukinni stéttaskiptingu í þjóðfélaginu og aukinni hættu á skaðlegum átökum um stöðu þeirra, sem lakast eru settir.
Jónas Kristjánsson
DV