Kringlan

Veitingar

Krimmi á Kringlukránni
Framlágur smákrimmi sat við borð með grátandi stelpu og útskýrði fyrir henni, að hann lemdi hana, af því að hún gerði hann svo æstan. Þetta var allur gestahópurinn á víðáttumikilli og snyrtilegri Kringlukrá. Breytileg lofthæð, óreglulegir veggir og hlykkjótt afgreiðsluborð milda stærðina og gera salinn að notalegasta veitingarými Kringlunnar til að drekkja sorgum undir þreytandi síbylju útvarps.

Matseðill með gloppum
Ekki var búizt við mörgum matargestum, því að ýmislegt á matseðlinum var ekki fáanlegt. Ég fékk þó matarmikla og mikið rjómaða sjávarsúpu með rækjum og hörpufiski; seigan smokkfisk á sterkri tómatsósu; steiktan steinbít með mildri og fínni chili-sósu; svo og hversdagslegt hakkabuff með kapers, sem bjargaði réttinum. Staðlað meðlæti var eins með kjöti og fiski. Sem matstaður var kráin þolanleg, en ekki mikið meira.

Rangali á Café Bleu
Gestir Borgarleikhússins hafa ekki í góð hús að venda, ef þeir hyggjast fá sér að borða fyrir sýningu. Matstaðir Kringlunnar eru eiginlega upphafnir skyndibitastaðir, ekki sambærilegir við meðaltal matstaða utan hins verndaða umhverfis. Að hætti Kringlunnar eru þetta staðir ímyndar umfram innihald. Að Café Bleu frátöldu eru þeir mikið og sumpart vel hannaðir sem húsnæði, en matreiðslan er ekki girnileg, einna skást og sérkennilegust í Café Bleu, óvenjulega stíllausum rangala síbreytilegs útlits, þar sem lífleg og vökul þjónusta er bezti kosturinn.

Hard Rock er að þreytast
Elzti og háværasti staðurinn á svæðinu er Hard Rock, sem hefur slakað á matreiðslu og þjónustu, sem núna er meira elskuleg en athafnasöm, enda þarf staðurinn ekki lengur að gera hosur sínar grænar fyrir barnafólki og túristum, sem koma hvort sem er. Ég fékk engin hnífapör með lítt glæsilegum rétti, hæfilega creole-grilluðum og góðum steinbít með litlum og hörðum rækjum. Grænmetissalatið var líka fremur gott og lítt glæsilegt.

Færiband komið í Eldhúsið
Ég á erfitt með að ræða Eldhúsið, því að ég hef komið þar fjórum sinnum og alltaf fengið óvenju illa gerðan mat. Nú sýnist mér hafa verið skipt um eigendur og matseðil, svo að ég þarf sjálfsagt að skipta um skoðun, en ég treysti mér varla til að reyna einu sinni enn. Takmörk hljóta að vera fyrir því, hvað maður leggur á sig fyrir hugsjónina. Ég var samt nýlega kominn inn úr dyrunum, en sá þá, að innan við anddyrið hafði verið smíðaður risavaxinn matbar með réttum á færibandi, í bókstaflegum skilningi. Mér féllust hendur og ég lagði á flótta.

Svipað milliverð
Allir þessir staðir eru á svipuðu milliverði, á kvöldin að meðaltali þríréttað með kaffi á 3.200 krónur í Café Bleu, 3.400 krónur á Hard Rock, 3.600 krónur á Kringlukránni og eitthvað hærra í Eldhúsinu.
Jónas Kristjánsson

DV