Kristnihátíð í gíslingu

Greinar

Ríkiskirkjan hefði betur gengið hóflegar fram í hrokanum, þegar hún gerði þúsund ára kristnihald á Íslandi að lúterskri innansveitarhátíð með rækilegri stéttaskiptingu kirkjudeilda, þar sem mönnum er vísað til vistar eftir því, hvar í flokki þeir standa.

Ríkiskirkja okkar kom hvergi að friðsamri og hagnýtri kristnitöku Íslendinga fyrir árþúsundi. Hún kom ekki til sögunnar fyrr en hálfri sjöttu öld síðar, þegar hún ruddist til valda í landinu með aftökum og gripdeildum í skjóli erlends vopnavalds.

Ef haldin væri þúsund ára kristnihátíð á eðlilegan hátt, mundi kaþólska kirkjan skipa annað öndvegið, því að hún vann það afrek að kristna þjóðina nánast baráttulaust á nánast einum degi fyrir þúsund árum og að láta ekki hné fylgja kviði í sigurvímunni.

Hitt öndvegið mundi ásatrúarsöfnuðurinn skipa, því að forverar hans áttu meginþátt í að búa til sátt, sem hélt almennum friði í landinu á tíma mestu hugmyndahvarfa Íslandssögunnar. Aðild ásatrúar mundi minna á sáttina, sem varð um þessi fyrri siðaskipti.

Hafa má til marks um, að fólk er almennt fylgjandi söguskoðun af þessu tagi, að sjaldan er minnzt þeirra Marteins biskups Einarssonar og Daða Guðmundssonar í Snóksdal, en þeim mun meiri hetjur eru Þorgeir Ljósvetningagoði og Jón biskup Arason.

Íslenzka ríkiskirkjan býr hins vegar í eigin hugarheimi með fremur lítilli aðild þjóðarinnar, en í skjóli rentunnar frá hinu opinbera. Ef ríkisaurunum væri kippt undan lúterskunni, yrði hún ekki fyrirferðarmeiri í þjóðlífinu en aðrir söfnuðir í landinu.

Um siðferðilega stöðu lúterskunnar í kirkjusögu kristninnar þarf ekki að segja margt annað en að benda á, að í fyrra játaði hún skriflega í sögufrægu samkomulagi, að enginn ágreiningur væri um kennisetningar milli hennar og kaþólskunnar.

Lúterskan kom til sögunnar á siðferðilega erfiðu tímabili í sögu kaþólskunnar og var studd til valda í norðanverðri Evrópu í skjóli veraldlegra foringja, sem ágirntust eignir kirkjunnar og sölsuðu þær undir sig. Þannig kynntust Íslendingar lúterskunni.

Hinar sögulegu staðreyndir málsins gefa ekki tilefni til neins hroka af hálfu biskupsstofu. Miklu fremur ættu þær að vera ríkiskirkjunni tilefni til lítillætis, þar sem hún samþykkti og staðfesti smæð sína í hinu stóra samhengi kristnitökunnar og kristnisögunnar.

Ríkiskirkjan hefur tekið kristnihátíð í gíslingu í samræmi við veraldarsýn, þar sem biskupsstofa er í sjöunda himni og öðrum skipað út frá henni í lægri og óvirðulegri himnum, sumum vísað til Hestagjár eða í Skógarhóla og sumir látnir greiða salernisgjald.

Samkvæmt þessari sjálfhverfu veraldarsýn lútersku ríkiskirkjunnar eru Krossinn og hommar í neðsta og lélegasta himninum í Hestagjá og ásatrúarmönnum vísað út fyrir tíma og endimörk himnanna, þar sem Skógarhólar leika hlutverk eins konar forgarðs helvítis.

Niðurstaðan er, að haldin verður eins konar lútersk innansveitarhátíð í sumar, en engin þúsund ára kristnihátíð. Ríkiskirkjan hefur rænt hátíðinni og gert hana að engu, rétt eins og hún rændi þjóðarauðnum fyrir hálfri fimmtu öld og flutti hann úr landi.

Arftakar Þorgeirs Ljósvetningagoða og Jóns Arasonar eiga meira erindi á þúsund ára kristnihátíð heldur en arfakar Daða í Snóksdal og Marteins biskups.

Jónas Kristjánsson

DV