Herlögregla Ísraels réðst á friðsamlega skrúðgöngu prúðbúinna og kristinna skáta og ylfinga í Jerúsalem síðdegis á pálmasunnudag og slasaði marga þeirra, af því að Palestínufánar voru meðal annarra hafðir á lofti á leiðinni til Kirkju hinnar heilögu grafar.
Þjóðfélag Ísraels hefur verið að krumpast á síðustu árum. Þjóðin er áberandi hrokafyllri í framgöngu en aðrar þjóðir og fer fram með vaxandi yfirgangi í samskiptum við aðrar þjóðir. Hugarfarið og framferðið minnir í auknum mæli á ríki Hitlers í Þýzkalandi.
Allt hefur þetta gerzt í undarlegu skjóli Bandaríkjanna, er veita árlega milljörðum dollara til að styðja öryggi ríkis, sem er eins konar krabbamein í Miðausturlöndum. Þannig hafa Bandaríkin um langan aldur unnið gegn hagsmunum Vesturlanda og kristinna kirkna.
Vestrænum ríkjum kæmi vel, að komið yrði á eðlilegum samskiptum milli kristinna ríkja og íslamskra ríkja. Stuðningur Bandaríkjanna við krumpun Ísraels kemur í veg fyrir slíkt. Börn og unglingar í heimi íslams alast upp í andstöðu við vestræn ríki og vestræna menningu.
Kristnum kirkjudeildum kæmi vel, að komið yrði upp alþjóðlegri stjórn á Jerúsalem til að tryggja, að öll trúarbrögð, sem hafa hagsmuna að gæta, geti óáreitt starfað þar í friði. Árás ísraelsku herlögreglunnar á kristnu skátana á pálmasunnudag sýnir, að svo er alls ekki nú.
Ísraelar hafa hernumið Jerúsalem og gert að höfuðborg sinni án þess að fá viðurkenningu umheimsins á því. Þeir hafa hernumið allan vesturbakka Jórdans og Gaza-svæðið og brjóta daglega flest ákvæði alþjóðlegra sáttmála um meðferð fólks á hernumdum svæðum.
Ekkert er að marka undirskriftir ísraelskra ráðamanna á sáttmálum og samningum. Þeir hafa rofið nærri öll ákvæði samkomulags um svokallaðan friðarferil. Þeir hafa haldið áfram hryðjuverkum sínum í Palestínu og refsa meðal annars ættingjum meintra andófsmanna.
Þar á ofan hefur stjórn Ísraels notað landamæravörzlu til að hindra, að Palestínumenn komi afurðum sínum úr landi. Þeir hafa þannig bakað Palestínumönnum milljarðatjón, sem Ísrael ber siðferðilega að borga, auðvitað með stuðningi Bandaríkjanna eins og venjulega.
Ísraelsstjórn heldur áfram að byggja upp vopnuð þorp ísraelskra landnema fyrir bandaríska peninga á landi Palestínumanna á vesturbakka Jórdans, þvert ofan í margendurteknar aðvaranir Sameinuðu þjóðanna. Þessi umdeildu landnemaþorp eru hreinar tímasprengjur.
Ísraelum hefur tekizt að gera Jassir Arafat háðan sér, en um leið hafa þeir grafið svo undan honum, að hann er fyrirlitinn af flestum Palestínumönnum. Þeir streyma nú í raðir Hamas-samtakanna, sem eru harðari í afstöðunni til Ísraels. Friðarferillinn er því í hættu.
Ekki þarf að tala við marga Palestínumenn til að komast að raun um, að frelsisþráin býr í brjóstum þeirra og hlýtur að fá útrás með einhverjum hætti, stundum með hryðjuverkum. En hryðjuverk kúgaðra verða aldrei eins forkastanleg og hryðjuverk hernámsliðs.
Palestínumenn eru upplýstir og menntaðir, en meðhöndlaðir af Ísraelum eins og hundar í eigin landi og munu ekki sætta sig við það. Friðarferill, sem ekki tekur tillit til hagsmuna annars aðilans, hlýtur að vera byggður á sandi og hlýtur að renna aftur út í sandinn.
Með eindregnum stuðningi Bandaríkjanna hefur Ísrael komið friðarferlinum í slíkan hnút, að vandséð er, að hann verði yfirleitt leystur á friðsamlegan hátt.
Jónas Kristjánsson
DV