Krónan er marklaus mynt

Greinar

Vel hefur komið í ljós á síðustu dögum, hversu mikilvæg er skráning gengis krónunnar í tilraunum stjórnvalda til að halda friði í þjóðfélaginu. Ef þeim tekst að komast hjá gengislækkun, spara þau sveiflu á verðbólguhjólinu og létta af kaupkröfuþrýstingi.

Að þessu sinni var fyrsta krafa Alþýðusambandsins, að gengi krónunnar yrði fryst. Þetta var gert með stuðningi Vinnuveitendasambandsins. Ríkisstjórnin var ekki sein á sér að lofa þessu umfram annað. Hún hagnýtti sér þar með hagstæðar breytingar á ytri aðstæðum.

Verðhrun olíu og verðhækkun fiskafurða á erlendum markaði hefur linað þrýsting útflutningsgreina á gengislækkun. Talið er, að útgerð og fiskvinnsla hafi undanfarnar vikur verið rekin nokkurn veginn taplaust. Gengisfrysting setur þau ekki á höfuðið að sinni.

Áratugum saman hefur eitt meginmarkmiða hverrar ríkisstjórnar á fætur annarri verið að halda afkomu sjávarútvegs í núlli. Þetta hefur verið framkvæmt á þann veg, að afkoman hefur verið höluð úr taprekstri upp í núllið, oftast með síðbúnum gengislækkunum.

Þær hafa svo reynzt ríkisstjórnum þungbærar, því að þær hafa aukið verðbólguna og kallað á kaupkröfur, sem hafa meira eða minna étið upp árangur lækkaðs krónugengis. Þannig hafa gengislækkanir verið eitt auðþekktu sporanna í verðbólgudansinum.

Það er hátíð í bæ ráðamanna, þegar þeim tekst að komast hjá gengisfellingu, svo sem tekizt hefur í vetur. Enn meiri er gleðin nú, þegar breytingar ytri aðstæðna gera þeim kleift að horfa fram á gengisfryst ár. Þetta sparar þeim ótrúlega mikið af vandræðum.

Slíkir hamingjutímar standa sjaldan lengi. Ytri aðstæður sveiflast til og frá. Fyrr en varir standa stjórnvöld andspænis roknatapi útflutningsatvinnuvega og neyðast þess vegna til að lækka gengi krónunnar og þá venjulega meira en lítið hverju sinni.

Nú eru liðin tíu ár síðan fyrst var lagt til í leiðurum þessa blaðs, að stjórnvöld væru losuð við þetta dýr keypta hagstjórnartæki, sem raunar er ekkert annað en vanabindandi og hættulegt deyfilyf. Tímabundnar þjáningar eru linaðar á kostnað útflutningsgreina.

Hin opinbera gengisskráning er skýrasta dæmi íslenzkra efnahagsmála um heimatilbúið vandamál, sem bakar meiri erfiðleika í náinni og fjarlægri framtíð en sem svarar þeim þjáningum, er hún linar á líðandi stund. Verst er, hversu handhæg og freistandi hún er.

Fyrir tíu árum var hér í blaðinu bent á, að góð lausn þessa vanda fælist í að leggja krónuna niður og taka upp einhvern alþjóðlegan mælikvarða, eins og við tókum á sínum tíma upp metrakerfið í staðinn fyrir álnir vaðmáls og fjórðunga fiska.

Hugmyndin hefur loks náð þeirri útbreiðslu, að Alþýðubandalagið og Morgunblaðið hafa sameinazt um að vara við henni. Þessir hugsjónabræður telja hana vera uppgjöf í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Íslenzk mynt sé forsenda efnahagslegs sjálfstæðis okkar.

Staðreyndin er hins vegar sú, að íslenzka krónan er ímynduð og marklaus mynt. Gengisskráning hennar hefur ekki hið minnsta gildi í útlöndum, hefur þvert á móti orðið okkur til siðferðilegs og efnahagslegs hnekkis og spillt stöðu okkar á báðum sviðum.

Margar fjölmennari og ekki síður virtar þjóðir nota aðra mynt en sína og losa sig þar með við freistingu, sem hefur valdið okkur efnahagslegu ósjálfstæði.

Jónas Kristjánsson

DV