Krónan er vandinn

Punktar

Davíðs-hrunið var bankahrun og gengishrun. Atvinnulífið hélt áfram á næstum fullum dampi, en lánsfé þraut. Hin frægu “hjól atvinnulífsins” snerust vel. En landið varð bara að lifa á afurðum sínum, ekki á ímyndunum. Laun lækkuðu, velferð minnkaði og ríkið tók á sig 500 milljarða. Einkum urðu Seðlabankinn og viðskiptabankarnir þungbærir. Fimm árum síðar er flest komið á eðlilegt ról. Vöruskipta- og viðskiptajöfnuður hafa lengi verið afar hagstæðir, smám saman saxast á skuldirnar. Eftir stendur svonefnd snjóhengja, sem felst í að kröfuhafar vilja alvörufé, en engar krónur. Vandi krónunnar vofir því enn.