Krónulaust sjálfstæði

Greinar

Löngum hefur þjóðremba verið sameiningartákn þeirra, sem þjóðum eru óþarfastir. Hún er einföld og hentug baráttuaðferð gegn hugmyndum, nánast gulltryggt verklag til að komast hjá umræðu um atriði, sem þjóðrembumenn vilja ekki, að fjallað sé um.

Umræðan um gildi íslenzkrar krónu er gott dæmi um þetta. Þeir, sem efast um gagnsemi eigin myntar, eru í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum sakaðir um óþjóðlega hugsun og vilja til afsals á sjálfstæði þjóðarinnar. Efnisleg rök fyrir slíku eru ekki á takteinum.

Svisslendingar hafa löngum verið taldir þjóðlegir. Þeir hafa eigin mynt, en líta á aðrar sem gjaldgengar í hversdagslegum viðskiptum. Þar hafa flestir kaupmenn gengisskráningu dagsins við kassann og eru reiðubúnir að taka við greiðslu í hvaða mynt sem er.

Varla er hægt að hugsa sér þjóð, sem er stoltari af sjálfri sér, en Lichentsteinara. Þeir lifa góðu lífi af rekstri banka og annarri þarfri iðju og hafa komið sér svo vel fyrir, að þeir þurfa ekki að greiða neina skatta. Samt hafa þeir ekki eigin mynt.

Luxemborgarar eru um margt svipaðir Lichtensteinurum. Þeir eru ekki minna sjálfstæðir en aðrir. Í málum útvarps og banka leyfa þeir sér að standa uppi í hárinu á nágrönnum sínum. Þeir munu um langan aldur blómstra sem sjálfstæð þjóð, án gengisskráningar.

Að vísu hafa Luxemborgarar til málamynda eigin franka. En gengi þeirra er alltaf hið sama og belgískra franka og belgískir frankar eru í landinu jafn gjaldgengir og ensk pund eru í Skotlandi. Luxemborgurum dettur ekki í hug að framleiða gengisvandamál.

Luxemborgarar og Lichtensteinarar mundu hlæja, ef þeir heyrðu, að þeir væru “að víkjast undan, neita að horfast í augu við vandamálin… og gefast upp við að takast á við þau”, eins og Morgunblaðið og Alþýðubandalagið tala um andstæðinga krónunnar.

Staðreyndin er þvert á móti sú, að Lichtensteinarar og Luxemborgarar hafa horfzt í augu við vandamálin og tekizt á við þau, sem við höfum hins vegar ekki gert. Þeir hafa kastað út eiturlyfi, sem íslenzk stjórnvöld nota til að telja sér trú um, að allt sé í lagi.

Panamamenn eru eina þjóðin í Rómönsku Ameríku, sem ekki býr við dúndrandi verðbólgu og óleysanlegar skuldir í útlöndum. Þeir hafa vit á að nota bandaríska dollara og búa því jafnan við nákvæmlega sömu verðbólgu og í Bandaríkjunum, það er að segja næstum enga.

Samt eru Panamamenn ekki undirgefnir Bandaríkjunum. Þeir hafa raunar í vaxandi mæli staðið uppi í hárinu á Bandaríkjastjórn og unnið gegn stefnu hennar í málum Mið-Ameríku, til dæmis Nicaragua. En Bandaríkjastjórn getur ekki bannað þeim að nota dollara.

Við ættum ekki að taka upp bandaríska dollara sem mynt, af því að reynslan sýnir, að þeir geta fallið í verði. Nærtækara væri að taka upp svissneska franka, því að reynslan sýnir, að þeir falla alls ekki í verði.

Við gætum einnig tekið upp svissnesku hefðina að nota hvaða gjaldgenga mynt sem er og þar á ofan reikningsmyntir á borð við ECU Efnahagsbandalagsins og SDR Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Altjend eigum við að leggja niður krónu, sem hlegið er að og er okkur til skammar.

Með afnámi krónunnar mundum við í einu vetfangi leggja niður möguleika stjórnvalda á heimaframleiddri verðbólgu á kostnað útflutningsatvinnuveganna. Við yrðum raunar loksins að efnahagslega sjálfstæðri þjóð.

Jónas Kristjánsson

DV