Dálkahöfundurinn Nicholas D. Kristof segir í New York Times í dag, að skoðanir og gerðir George W. Bush byggist á trúarofsa hans, sem sé í samræmi við róttæka trú þeirra 46% Bandaríkjamanna, sem segjast vera endurfæddir í kristni. Bush segist ekki trúa þróunarkenningunni, enda trúa 48% Bandaríkjamanna sköpunarkenningunni, en aðeins 28% þróunarkenningunni. Það fylgir bandaríska trúarofsanum, að 68% þeirra trúa, að djöfullinn sé til. Í þessu samhengi er Bush eins konar Messías, sem varar lýðinn við illum öflum úti í heimi og hyggst endurhanna allt stjórnmálaferli í Miðausturlöndum. Hann er trúarofstækismaður á leið í krossferð gegn illum múslimum.