Fyrir framan mig er ég með nokkrar bækur eftir Trausta Valsson prófessor. Þær fjalla um skipulag lands og borgar, heita Ísland hið nýja, Land sem auðlind, Borg og náttúra og fleira í þeim dúr. Stundum er ég hvattur til að lesa þær, af því að furðu margir athugulir menn telja þær merkilegar.
Ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu: Þessar bækur eru rugl. Bak við þær er engin empíría, nánast engar rannsóknir á þörfum eða vilja almennings hér heima eða erlendis, engin ritaskrá þekktra vísindamanna í skipulagsfræðum erlendis, aðeins nokkurra hugmyndafræðinga. Bækurnar eru bara hugsjón.
Trausti hefur ekki kenningar, heldur tilgátur, sem hann rissar upp í þríhyrningum, kristöllum, hringjum og jafnvel í skozka þjóðfánanum. Þetta minnir mig á karlana, sem mældu göngin í Keops-píramídanum og fengu út úr því alls konar tilgátur um, hvernig mannkyn hefði þróazt og mundi þróast.
Svo virðist sem ruglið í skipulagi Reykjavíkur og hálendis Íslands sé sumpart byggt á tilgátum Trausta og á hliðstæðum tilgátum erlendra skipulagsfræðinga, sem hafa predikað á ráðstefnum hér á landi og snúið skipulagsfólki og arkitektum til trúar á teiknivinnu í stað empíriskra félagsvísinda.
Afleiðing trúarinnar á teiknivinnu er skipulag borgarhverfa út frá því sjónarmiði, hvernig hverfið muni líta út í augum flugmanns. Önnur afleiðing er þétting byggðar, sem tekur of lítið tillit til vilja og hagsmuna þeirra, sem fyrir búa í hverfinu og missa svigrúm eða útsýni eða hvort tveggja.
Þriðja afleiðingin er oftrú á evrópskum borgum, sem eru þröngar, af því að þær voru einu sinni umluktar múrum. Engin vísindi eru til, sem segja, að fólki líði betur í borgum með hárri fermetranýtingu að evrópskum hætti heldur en í borgum að bandarískum hætti. Fullyrðingar um slíkt eru bara rugl.
Fjórða afleiðingin er trú á nauðsyn þess að kvelja þá, sem eiga og nota bíla. Sú firra er risin hjá Reykjavíkurborg, að stöðva beri frekari mislæg gatnamót og breiðgötur af því að þessi mannvirki klippi hverfi borgarinnar hvert frá öðru. Alls engin empírísk vísindi eru að baki, aðeins teikningar.
Reykjavíkurborg og aðrir skipuleggjendur lífsins hér á landi eiga að hætta að trúa á spámenn, sem kúra undir sauðargæru skipulagsfræðinga og byggja ekki á neinum rannsóknavísindum.
DV