Krua Thai

Punktar

Krua Thai

Góður skyndibitastaður austrænn er á horni Geirsgötu og Tryggvagötu, Krua Thai, sem býður vel úti látna tælenzka rétti á 1000 krónur hvern. Í hádeginu er þar á ofan boðin fjórrétta blanda á 800 krónur. Þetta er auðvitað skyndibiti upp úr hitakössum, en mjög frambærilegur fyrir þetta verð. Húsakynni eru að vísu ekki merkileg, en tandurhrein og snyrtileg. Við diskinn má fletta handbók með myndum af réttunum að hætti margra skyndibitastaða. Þjónusta er hröð, ég var kominn heim aftur eftir 35 mínútur, þar af fimm mínútur í hvora ferð. Þetta er þriggja stjörnu staður.

Veitingarýni

Réttur dagsins var djúpsteiktur fiskur og tvenns konar kjúklingur, hrísgrjón og núðlur með sætsúrri sósu. Fiskurinn var furðanlega góður, að vísu frystur, en ekki gamall og ekki of mikið djúpsteiktur. Kjúklingurinn var mildur og meyr og sama var að segja um kjúkling með cashew-hnetum. Sterkari var svonefndur pad ped kjúklingur í rauðu karríi. Svínakjöt í mildri engifer- og ostrusósu var ekki nógu meyrt. Betra var svínakjöt satay í þunnum sneiðum á fimm grilluðum tréspjótum, ekki tiltakanlega ofeldað. Núðluréttur með kjúklingi var hvorki fallegur né áhugaverður.

Indland og Kína

Matreiðslan á Krua Thai er fínlegri en gengur og gerist á tælenzkum stöðum. Til dæmis var betur farið með fisk, sem annars staðar er eldaður út í eitt. Tæland er venjulega staðsett milli Kína og Indlands í matreiðslu. Frá Kína koma núðlur og frá Indlandi kemur karrí. Skyndibitastaður hlýtur í sjálfu sér að taka tillit til aðstæðna í nýju landi, en mér finnst þessi staður tiltakanlega ekta. Til að kynnast tælenzkri matreiðslu þarf þó að heimsækja dýrari staði.

DV