Kúariðan vakti fólk

Greinar

Kúariðan í Evrópu varð að íslenzku innanlandsmáli, þegar yfirdýralæknir heimilaði án nauðsynlegra öryggisgagna innflutning nautakjöts frá Írlandi, því landi, sem sætir mestri kúariðu í Evrópu á eftir Bretlandi. Virðist embættismaðurinn hafa vanrækt eftirlitsskylduna.

Áður var landbúnaðarráðherra búinn að kynda undir málinu með því að heimila innflutning fósturvísa nautgripa frá Noregi, þótt þar í landi hafi yfirvöld áhyggjur af heilsufari norska kúakynsins. Fólk vill nú allt í einu hlusta á þá, sem vöruðu við þessum innflutningi.

Ekki bætir úr skák, að nýlega var hafinn í Flóanum rekstur á verksmiðju, sem býr til mjöl úr afgangsafurðum sláturhúsa. Það eru einmitt slíkar verksmiðjur, sem eru í sviðsljósi kúariðuskelfingarinnar í Evrópu. Erfitt verður að komast hjá að loka þessari nýju verksmiðju.

Eðlilegt er að fólki bregði í brún, þegar það sér, að gæzlumenn almannahagsmuna hafa með þjónustu við sérhagsmuni í matvælageiranum stefnt heilsu fólks í hættu. Slíkar uppgötvanir hafa valdið ómældri skelfingu víðs vegar í Evrópu og nú gætir þess einnig hér.

Skammt er yfir í öfgar, þegar hræðslan er komin í gang. Menn gleyma, að kúariða er ekki talin flytjast með vöðvum eins og þeim, sem voru til sölu hér á landi. En embættismenn geta ekki varizt, þegar þeir hafa verið staðnir að því að fara ekki eftir settum reglum um eftirlit.

Þannig hafa stjórnmálamenn og embættismenn úti í Evrópu glatað trausti. Þegar almenningur áttar sig skyndilega á, að ekki standast fyrri fullyrðingar þeirra um, að allt sé í lagi, trúir hann ekki lengur neinu, sem þeir segja, og allra sízt róandi fullyrðingum þeirra.

Til þess að reyna að endurheimta traustið neyðast ráðamenn til að taka djúpt í árinni í gagnaðgerðum. Þeir banna innflutning kjöts, þeir láta framkvæma niðurskurð búfjár og þeir loka kjötmjölsverksmiðjum, jafnvel þótt engar líkur séu á smithættu í flestum tilvikanna.

Þess vegna duga ekki vandræðalegar yfirlýsingar um, að afgangsafurðir sláturhúsa séu í lagi hér á landi, mjölið verði ekki notað í stórgripafóður og að það verði ekki notað innanlands. Litið verður á pólitísku skjaldborgina um verksmiðjuna í Flóanum sem sérhagsmunagæzlu.

Almennt mun kúariðufárið heima og heiman leiða til stórminnkaðrar neyzlu nautakjöts og minni neyzlu annars kjöts. Neyzlan mun að hluta til flytjast yfir í grænmeti, sem er neðar í fæðukeðjunni og hefur ekki safnað upp öllum óþverranum, sem er ofar í keðjunni.

Líklegt er, að kröfur aukist um ódýrari aðgang almennings að grænmeti, einkum lífrænt ræktuðu grænmeti, er felur í sér mun minna af skaðlegum efnum, sem notuð eru við nútímalega þrautræktun á borð við ræktun erfðabreyttra matvæla. Tollarnir verða heimtaðir burt.

Íslendingar borða miklu minna grænmeti en aðrar vestrænar þjóðir. Það stafar af hagsmunagæzlu árstíðarbundinna ofurtolla eftir misjöfnu framboði innlendra gróðurhúsa. Nauðsynlegt er að afnema þessa tolla, ekki sízt á grænmeti, sem hefur lífræna vottunarstimpla.

Áhugi fólks á mataræði mun óhjákvæmilega aukast við kúariðufárið. Þeim hefur snögglega fjölgað, sem gera sér grein fyrir, að ekki er sama, hvað þeir láta ofan í sig. Harðari kröfur verða gerðar um greiðan aðgang að fæðu, sem ekki er grunuð um að skaða heilsu fólks.

Erfiðara verður fyrir ráðamenn að gæta hættulegra sérhagsmuna í landbúnaði, matvælaiðnaði og matvælainnflutningi, sem stangast á við almannahagsmuni.

Jónas Kristjánsson

DV