Kúfur á fjórþættu böli.

Greinar

Tillögur formanna stjórnarflokkanna ná afar skammt í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Endurbæturnar stefna eingöngu að afnámi útflutningsbóta og það á löngum tíma. Þær eru að vísu grófasti hluti landbúnaðarbölsins, en samt ekki nema lítill hluti þess alls.

Ríkið hefur einkum ferns konar afskipti af landbúnaði umfram aðra atvinnuvegi. Í fyrsta lagi bannar það innflutning á afurðum, sem gætu keppt við hinn hefðbundna landbúnað . Í öðru lagi styrkir það hinn hefðbundna landbúnað til aukinna umsvifa í fjárfestingu og rekstri.

Í þriðja lagi greiðir ríkið niður notkun innanlands á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar. Raunverulegur markaður er ekki til fyrir allar hinar dýru afurðir, en í staðinn býr ríkið til markað með niðurgreiðslum. Þær eru dýrasti hluti hins spillta kerfis.

Að svo miklu leyti sem þriðja leiðin nægir ekki til að eyða kjötfjöllum, smjörfjöllum og öðrum slíkum fjöllum, hefur ríkið beitt útflutningsbótum sem fjórðu leið til að losna við afurðir, sem eru svo dýrar, að þær eru ekki seljanlegar á neinum markaði.

Útflutningsbæturnar eru því aðeins kúfurinn á fjórþættu þjóðarböli, sem felst samanlagt í innflutningsbanni, styrkjum til framkvæmda og rekstrar, niðurgreiðslum og útflutningsbótum. Brottfall þeirra er betra en ekki neitt, þótt það feli ekki í sér stórt skref.

Samkvæmt tillögum formanna stjórnarflokkanna eiga samtök og stofnanir landbúnaðarins að fá völd til að beita kvótakerfi og búmarki til að eyða útflutningsbótaþörf mjólkurafurða á tveimur árum og kjöts á fjórum til fimm árum. Það þyngir nú skap þingmanna Framsóknar.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda var fallizt á vinnubrögð af þessu tagi. Ekki er þó þjóðfélagið sloppið fyrir horn. Stéttarsambandið vill koma upp kvótakerfi og búmarki í þeim greinum landbúnaðar, sem eru utan hins fjórverndaða, hefðbundna hluta.

Ef það tækist, mundi Stéttarsambandið skera niður framleiðslu eggja, kjúklinga og svínakjöts í von um að búa á þann hátt til aukinn ímyndunarmarkað fyrir niðurgreiddu vörurnar, kjöt og mjólkurvörur. Það kvartar þegar um, að hliðarbúgreinarnar taki frá hinum hefðbundnu.

Liður í því kvótakerfi sem öðrum yrði búmark, er einkum yrði notað gegn stóru framleiðendunum, sem hafa verksmiðjusnið á rekstrinum og halda niðri verði til neytenda. Stærð búa yrði takmörkuð við svokallaða fjölskyldustærð, sem Stéttarsambandið vill koma á.

Þá lýsa samþykktir Stéttarsambandsins einnig áhuga á að loka bændastéttinni til að útiloka þéttbýlismenn frá hliðarbúgreinum, þar á meðal ræktun á loðdýrum og laxi. Stofnun Íseggs er liður í tilraunum til að flytja einokunarkerfið yfir í hliðarbúgreinar.

Hagsmunasamtök landbúnaðarins telja ekki nóg, að fyrsta leið, innflutningsbann, ríki í hliðarbúgreinum. Kjarnfóðursjóðurinn er nýtt dæmi um, að þau vilja koma þar upp sams konar kerfi styrkja til framkvæmda og rekstrar og ríkir í hinum hefðbundna landbúnaði, – leið númer tvö.

Síðan verður reynt við þriðju leiðina, niðurgreiðslurnar. Þing Stéttarsambandsins byrjaði á því að heimta niðurgreiðslur á kartöflur. Lokastigið verður svo tilkoma fjórðu leiðarinnar, útflutningsbóta í öllum greinum landbúnaðar, ekki bara í þeim, sem eiga að njóta þeirra næstu tvö-fimm árin.

Jónas Kristjánsson.

DV