Kunnáttulítill hægagangur

Greinar

Hægagangur er að verða hættuleg hefð í stjórnarkreppum. Rosatíma er eytt í einfalda hluti á borð við að leita að stefnuskrám flokka, setja óskir í númeraröð og láta reikna þær út. Hið raunverulega pólitíska innsæi, ­ að kunna list hins mögulega, verður útundan.

Svokallaðar könnunarviðræður taka heila viku. Á þeim tíma þykist formaður eins stjórnmálaflokksins vera að kanna, hvort ákveðnir flokkar vilji ræða þáttöku í ríkisstjórn. Í venjulegum viðskiptum væri slíkt afgreitt í nokkrum símtölum fyrir klukkan tíu.

Síðan hefjast svokallaðar samningaviðræður, sem taka aðra viku. Í þeirri viku kynnir fyrrgreindur formaður sér, hverjar séu stefnuskrár hinna flokkanna í viðræðunum. Allir flokkarnir, sem þátt taka, draga úr pússi sínu kosningastefnuskrár og afhenda þær.

Í venjulegum samskiptum og viðskiptum er mönnum kunnugt um slík atriði og þurfa ekki að spyrja um þau. Raunar þætti á öðrum sviðum þjóðlífsins skrítið, að fólk setjist að samningaborði án þess að hafa fyrir hádegi hugmynd um, hvað hinir hafa til málanna að leggja.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna eru aðgengilegar á prenti löngu fyrir kosningar. Verkstjórar í stjórnarmyndunarviðræðum eru að gera sér upp fánahátt með því að verja heilli viku í að kynna sér eftir kosningar, hvað flokkarnir höfðu fram að færa fyrir kosningar.

Að þessu loknu kemur þriðji liður hægagangsins, sem felst í, að verkstjórinn kynnir sér á heilli viku, hvaða atriði í stefnuskrám flokkanna skipti þá meira máli en önnur. Á þessari þriðju viku virðast samningsaðilar fyrst uppgötva það, sem alþjóð vissi fyrir kosningar.

Í venjulegum samskiptum eru menn beðnir um að númera áhugamál sín í röð mikilvægis eins og á hverjum öðrum óskalista, þegar þeir leggja fram gögn sín. Upplýsingar um úrslitamálin eiga að liggja á samningaborðinu strax síðdegis á fyrsta degi viðræðnanna.

Síðast eru óskalistar aðila viðræðna um stjórnarmyndun sendir til opinberra stofnana, sem hafa að hlutverki að framleiða tölur fyrir stjórnvöld. Fjórða vikan fer í að afla hagfræðilegra spádóma, sem ættu að hafa verið til, áður en viðræðurnar hófust.

Þjóðhagsstofnun á að fylgjast með þjóðarhag. Fyrir kvöldmat á fyrsta degi viðræðna um stjórnarmyndun á stofnunin að geta svarað fyrirspurnum verkstjóra viðræðnanna um, hvaða áhrif á þjóðhagsspár hafi hinar ýmsu útgáfur atriðanna, sem efst eru á óskalistunum.

Þannig ætti á einum degi að vera hægt að átta sig á, hvort takast kunni stjórnarmyndun á borð við þá, sem Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var að dunda við að undirbúa í langan tíma, áður en kom í ljós, að stjórnarmyndun er ekki einfalt hagdæmi.

Tilraun hans til stjórnarmyndunar var kunnáttulítil. Raunveruleg stjórnmál felast í list hins mögulega, eins og Gunnar Thoroddsen sýndi, þegar hann myndaði ríkisstjórn á fjórum dögum, eftir að annar verkstjóri hafði safnað gagnslitlum hagskýrslum í 38 daga samfleytt.

Stjórnmálin taka við, er hagspánum sleppir. Glöggur stjórnmálamaður áttar sig á, hvað er í rauninni kleift og hvað ekki. Hann býst ekki við, að Þjóðhagsstofnun reikni saman ríkisstjórn. Hann býr til samkomulag í stöðu, sem kunnáttulitlir menn töldu vonlausa.

Í tilraunum til myndunar ríkisstjórna á Íslandi hefur síðustu tvo áratugina oft skort hið pólitíska þefskyn, innsæi og lipurð, sem einkenndi suma gömlu foringjana.

Jónas Kristjánsson

DV