Kúrdar eru kosningapeð

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti er að láta kanna, hvernig unnt sé að ljúka Persaflóastríðinu, sem hann hætti við fyrir réttu ári. Ímyndarfræðingar hans telja slæmt fyrir hann að taka þátt í öðrum forsetakosningum, ef Saddam Hussein verður enn við völd í Írak á næsta vetri.

Til skamms tíma hefur almenningsálitið í Bandaríkjunum talið Bush hæfan í utanríkismálum, þótt dæmin sýni hið gagnstæða. Ímyndarfræðingar forsetans telja, að framhaldslíf Saddams Hussein í Bagdað eigi verulegan þátt í að minnka traust bandarískra kjósenda.

Bandaríska utanríkis- og leyniþjónustan eru nú að æsa Kúrda og Sjíta til nýrrar uppreisnar gegn Saddam Hussein. Núna er flaggað gylliboðum um, að í þetta sinn muni Bandaríkin ekki leyfa Saddam Hussein að nota flugher sinn og þyrlur gegn uppreisnarmönnum.

Eins og fyrri daginn eru Kúrdar og Sjítar peð á skákborði lélegra manngangsmanna í Washington. Þar hefur frá því í stríði verið reynt að tefla málum í þá stöðu, að Saddam Hussein fari frá, en við taki hugnanlegri maður úr valdahópi Ba’athista og haldi ríkinu saman.

Samkvæmt stefnunni í Washington er hætta á, að klerkaveldið í Íran flæði til vesturs, ef Írak veikist of mikið eða klofnar í aðskilin ríki hinna þriggja meginþjóða landsins. Þess vegna studdu Bandaríkin Saddam Hussein í árásarstríðinu gegn Íran á níunda áratugnum.

Samkvæmt stefnunni lét Bush í Persaflóastríðinu stöðva sókn bandamanna til Bagdað og hleypa her Saddams Hussein undir vopnum úr herkvínni. Schwarzkopf herstjóri og yfirmenn bandamanna voru furðu lostnir, en fengu ekki að gert. Stríðinu var hætt í miðju kafi.

Þegar svo kom í ljós, að þetta dugði ekki til hallarbyltingar í Ba’ath flokknum, æsti Bush Kúrda og Sjíta til uppreisnar. Þeir töldu sér vísan stuðning Bandaríkjastjórnar, en voru sviknir um hann, því að Bush vildi ekki hleypa þeim of langt gegn ríkiseiningu Íraks.

Kúrdar sættu óárreittum lofthernaði af hálfu stjórnarhers Saddams Hussein, guldu mikið afhroð og flúðu tugþúsundum saman á fjöll. Þær hörmungar standa enn og einmitt vegna þeirra er skákmaðurinn Bush Bandaríkjaforseti sannkallaður stríðsglæpamaður.

Nú er Bush að reyna að nota peðin á nýjan leik, að þessu sinni til að koma í veg fyrir, að Bandaríkjamenn átti sig á, að hann tapaði persónulega sigri bandamanna í Persaflóastríðinu. Hann vill, að hin sviknu peð treysti sér á nýjan leik og hjálpi sér í kosningabaráttunni.

Saddam Hussein virðist að öðru leyti traustur í sessi, enda hefur hann hreinsað svo til í kringum sig, að einungis ættmenn hans eru við stjórnvölinn í landinu. Hann mun ótrauður halda áfram að reyna að byggja upp kjarnorkuvopn og ógna olíulindum við Persaflóa.

Stjórnarfarið í Kúveit hefur lítið skánað við frelsunina. Í stað ógnarstjórnar Íraka hefur verið endurvakin afturhaldsstjórn fremur ógeðfelldrar og duglausrar furstaættar, sem er andvíg vestrænni hugmyndafræði, beitir sér gegn lýðræði og ofsækir útlendinga.

Það er því fremur lítið, sem stendur eftir þetta dýra Persaflóastríð, sem bandamenn Bandaríkjanna greiddu að fullu, annað en að ekki sé hægt að treysta Bandaríkjastjórn, þegar lélegir manngangsmenn í Washington þykjast sjá leikfléttur á skákborði alþjóðastjórnmála.

Ef aðvífandi kosningar í Bandaríkjunum verða til að lina hörmungar Kúrda, sem hafa verið geymdir á fjöllum í nokkur misseri, er þó ekki allt unnið fyrir gýg.

Jónas Kristjánsson

DV