Kurteisleg umbúðagerð.

Greinar

Kosningabaráttan hefur verið kurteisleg, ef miðað er við fyrri tíma, þegar málgögnin gengu berserksgang í tilbúnum uppljóstrunum, óheiðarlegu skítkasti og vondum ljósmyndum af frambjóðendum andstæðinganna.

Alþýðublaðið, Morgunblaðið, Tíminn, Þjóðviljinn og önnur málgögn eru að vísu sneisafull af áróðri, sem er yfirleitt ómerkilegur, en sjaldan beinlínis óviðurkvæmilegur. Að þessu leyti fer kosningabarátta batnandi með hverju tækifæri, sem gefst.

Um leið hefur minnkað áhugi frambjóðendanna á þessum áróðri í eigin málgögnum. Hann er stundaður með hangandi hendi, enda telja áróðursmenn réttilega, að vettvangur málgagnanna sé ekki hinn heppilegasti, sem völ er á.

Frambjóðendur leggja mesta áherzlu á sjónvarpið sem áróðurstæki. Hápunktar kosningaundirbúningsins felast í vinnu fyrir sjónvarpsþættina, sem sýna andlit frambjóðenda. Önnur undirbúningsvinna hverfur í skugga sjónvarpsundirbúnings.

Alþjóðleg reynsla sýnir, að sjónvarpið er ekki miðill til að koma skoðunum á framfæri, heldur persónum. Í sjónvarpi er torvelt að selja stefnu eða afrekaskrá, en auðvelt að selja meintan persónuleika frambjóðenda.

Stundum mistekst auglýsingastofunum. Barnið fór að gráta, þegar það hélt, að Steingrímur ætlaði út úr sjónvarpstækinu inn í stofu. Og menn hlógu, þegar þeir sáu Guðmund í gömlum frakka að kofabaki. En kannski var þar gáfumannafélagið að verki.

Yfirleitt tekst sérfræðingunum þó að láta líta svo út, sem frambjóðendur séu góðviljaðir. Þar með næst sá árangur, sem mögulegur er í sjónvarpi, þegar frambjóðendur eru ekki meiri bógar, meiri landsfeðraefni, en raun er á.

Í þessari sölu á persónum verður kosningabaráttan að keppni auglýsinga- og fjölmiðlamanna um nýjar og betri umbúðir. Innihaldið skiptir sáralitlu máli, enda er það nánast ekki neitt í miklum hluta kosningasjónvarpsins.

Frambjóðendur segja okkur, hvað þeir vilja okkur vel, á hversu ótal mörgum sviðum þeir vilja umbætur. Sumar ræðurnar eru eins konar efnisyfirlit óskhyggjunnar. En þær segja okkur ekkert um fyrirhugaðar aðgerðir eftir kosningar.

Einstaka sinnum þykjast frambjóðendur gera sérstaklega vel og segjast geta fundið peninga til að fjármagna góðviljann. En almenna reglan er samt sú, að talað er um góðverkin eins og þau kosti ekki túskilding með gati.

Óskhyggjuruglið bylur á daufum hlustum vaxandi fjölda kjósenda, sem sættir sig ekki við slíka meðhöndlun. Þessir kjósendur vilja vita, hvernig góðverkin verði framkvæmd, hvaðan peningarnir eigi að koma og hvaða áhrif þetta hafi á önnur svið.

Þeim finnst ekki nóg að heyra, að til dæmis til vegagerðar og íbúðalána eigi að fara peningar, sem nú séu látnir í annað. Þeir vilja vita, hvað þetta “annað” sé og hvað gerist á þeim póstum við slíka millifærslu fjármagns.

Frambjóðendum á að vera kunnugt um, að þessir kjósendur eru til og að þeir valda því, að verra en nokkru sinni fyrr er að spá um úrslit kosninga. Þeir vita þetta af skoðanakönnunum og af heimsóknum sínum á vinnustaði kjósenda.

Sums staðar á vinnustöðum hafa kjósendur spurt í þaula og ekki tekið undanbrögð sem svar. Þess vegna eru vinnustaðafundirnir merkasta nýjung kosningabaráttunnar. Smám saman geta slíkir fundir afklætt frambjóðendur úr umbúðunum og þvingað þá til að leita að innihaldi, þótt það hafi ekki tekizt enn.

Jónas Kristjánsson.

DV