Kvaldasti klárinn

Greinar

Þangað er klárinn fúsastur sem hann er kvaldastur. Svo segir í sautjándu aldar máltæki, sem er klæðskerasniðið fyrir kaup Símans á hlut í Skjá einum. Fyrst var tugum milljóna stolið af Símanum til að nota í þetta gæludýr Sjálfstæðisflokksins og nú er hann farinn að kasta góðum peningum á eftir vondum.

Síminn er ríkisfyrirtæki, rekið af leifum Kolkrabbans. Ýmsir aðrir umboðsmenn Kolkrabbans hafa tekið sína eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni Sjálfstæðisflokksins og látið afhenda sér gullnar fallhlífar til að stökkva yfir á ódáinsekrur digurra eftirlaunasamninga. En Síminn er ennþá ríkisfyrirtæki.

Forstjóri Símans notar peninga, sem aflast hafa í skjóli rándýrrar einokunar fyrirtækisins, til að kasta í gæludýr, sem lengi hefur verið áhugamál og verkefni afla í Sjálfstæðisflokknum, svo sem Morgunblaðsins og Landsbankans. Þetta er nýjasta björgunartilraunin af mörgum.

Skjá einum var stillt upp til að hirða leifarnar af Stöð tvö, þegar hún mundi hrapa af völdum offjárfestingar. Þannig ætluðu Flokkurinn, Kolkrabbinn og Morgunblaðið sameiginlega að ná tökum á fjölmiðlun á vegum einkaaðila til viðbótar tökum Sjálfstæðisflokksins á ríkisrekinni fjölmiðlun.

Þetta mistókst gersamlega eins og frægt hefur orðið og leiddi til atgangsins við að koma upp ríkisskipan fjölmiðla samkvæmt fjölmiðlafrumvarpi. Það var dregið til baka eftir harða rimmu, enda hafði Sjálfstæðisflokkurinn ekki nægan meirihluta á Alþingi til að stýra þjóðinni í þágu flokksins.

Kaup Símans á hluta í Skjá einum er örvæntingarfull aðgerð í tapaðri stöðu. Þau eru fyndinn eftirmáli fjölmiðlastríðs Sjálfstæðisflokksins, Kolkrabbans og Morgunblaðsins. Þau fela í sér veika von um, að tímabundið ástand Símans geti verið hækja að hökti Skjá eins inn í ótryggt framtíðarland.

Þegar Síminn verður einkavæddur, fer forstjórinn sömu leið og fyrri forstjórar kolkrabbans, í gullinni fallhlíf inn á ódáinsekrur eftirlauna. Vonað er, að vildarvinir muni kaupa fyrirtækið og tryggja framhald á stuðningi við Skjá einan. En líklega þarf Síminn fremur að gæta eigin hagsmuna.

Kannski kaupir Baugur Símann. Kannski kaupir Osama bin Laden Símann. Þetta eru dapurlegir og uggvænlegir tímar fyrir Kolkrabbann, sem hefur á vakt Davíðs Oddssonar séð heljartök sín á þjóðinni slitna hvert af öðru og komast í hendur aðila, sem ekki hafa fengið meðmæli af hálfu Flokksins.

Hinn sífellt fjársvangi Skjár einn hefur kvalið Flokkinn um langt skeið. Samt hefur hann ekki afskrifað matargatið. Flokkurinn er fúsastur þangað, sem hann er kvaldastur.

Jónas Kristjánsson

DV