Kvarta og kveina

Greinar

Myndarlegur hópur menningarvita hefur skrifað undir ályktun gegn niðurskurði ríkispeninga til tónlistarskóla um nokkra tugi milljóna. Ekki er vitað, að neinn listvinurinn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Austfirðingum og Vestfirðingum finnst ganga seint að fá ríkið til að hefja undirbúning að örfárra milljarða króna vegagöngum milli fjarða. Ekki er vitað, að neinn heimamaðurinn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Íþróttaforkólfar hafa kvartað sáran yfir nokkurra milljóna almennum niðurskurði ríkisfjár til byggingar íþróttahúsa og styrktar íþróttum. Ekki er vitað, að neinn íþróttafrömuðurinn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Reykvískur borgarstjóri og þingmenn Reykjavíkur kveina um, að borgin sé afskipt við úthlutun peninga til skóla og heilsustofnana. Ekki er vitað, að neinn þessara mektarmanna hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Menntaráðherra og menntafólk standa í ströngu við að fá nokkrar milljónir til að ljúka bókhlöðu-þjóðargjöfinni. Ekki er vitað, að neinn þessara andans manna hafi lyft litla fingri til að benda á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Námsmenn og húsnæðisskertir þreytast ekki á að fræða stjórnvöld mörgum sinnum árlega um, að þeir fái ekki nógu mikil og niðurgreidd lán. Ekki eru margir í þessum hópum, sem benda á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Náttúruverndarráð og landverndarsamtök harma sáran nokkurra milljóna niðurskurð á gustukafé ríkisins til uppgræðslu sauðbitins Íslands. Ekki er vitað, að neinn náttúrudýrkandi hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Bílaeigendur kvarta um, að ekki var tekið tilboði verktaka um að lána slitlag á hringveginn, sem alls er talið munu kosta einn eða tvo milljarða. Ekki er vitað, að margir ökumenn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Skattgreiðendur byrja senn að gráta aukna skattbyrði eftir áramót, þegar staðgreiðslukerfið verður notað til að seðja glorsoltna ríkishít. Ekki hafa enn margir skattkvaldir menn bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Samtök kennara hafa lengi staðið í ströngu við að sýna ríkisvaldinu fram á, að þeir séu vanhaldnir í launum og tolli ekki í starfi. Ekki verður munað eftir neinum læriföður, sem bent hefur á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Sveitarstjórnarmenn af öllu landinu hafa gengið bónleiðir frá búð fjárveitinganefndar Alþingis, án langþráðs flugvallar, hafnar, sjúkrahúss og skóla. Ekki hefur heldur neinn byggðastjóri bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Fjárveitinganefndarmenn kvarta um að þurfa að verja hundruðum stunda til að taka við bænarskrám upp á samtals tvo milljarða og geta ekkert fé fundið. Enginn þeirra hefur bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Þjóð, sem hefur ráð á að brenna á hverju ári sex milljörðum í landbúnaði, á ekki að vera að kvarta og kveina, þótt hún fái ekki öðrum hugsjónum framgengt.

Jónas Kristjánsson

DV