Kvartmilljón á fjölskyldu

Greinar

Með vorinu er að koma í ljós, að breytingar stjórnvalda á sköttum í vetur valda þjóðinni aukinni skattbyrði. Aukningin kemur út af fyrir sig ekki á óvart, því að ríkisstjórnir hafa áratugum saman notað breytingar á skattkerfi til að hafa meiri peninga af fólki.

Athyglisvert er hins vegar, að aukningin er óvenjulega mikil og raunar nokkru meiri en gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar héldu fram í vetur. Þetta er smám saman að koma í ljós í mánaðarlegum skýrslum hins opinbera um innheimt skattfé á fyrstu mánuðum ársins.

Einna hrikalegust er hækkun söluskatts, sem felur nú í sér matarskattinn, er kom til sögunnar eftir áramót. Söluskatturinn var í marz 50% hærri en hann var í sama mánuði í fyrra. Er þá reiknað á föstu verðlagi, búið að draga frá verðbólguhækkun milli ára.

Á móti hækkun söluskattsins vegur lækkun ýmissa tolla. Þegar allt er reiknað, hækkuðu óbeinir skattar um 10% milli ára á þremur fyrstu mánuðum þessa árs, að verðbólgunni frádreginni. Þar að auki hefur svo orðið umtalsverð hækkun gjalda á bílum og fóðri.

Þegar matarskatturinn var lagður á, var fullyrt, að verið væri að einfalda innheimtu óbeinna skatta, en alls ekki verið að auka hana. Nú hefur nokkrum mánuðum síðar hins vegar komið í ljós, að réttar voru viðvaranir gagnrýnenda, sem þá voru sagðir fara með fleipur.

Enn verri hefur þróun tekjuskatta orðið. Hún er nákvæmlega sú, sem sagt var fyrirfram hér í blaðinu. Ríkisstjórnin notaði kerfisbreytingu staðgreiðslunnar til að hækka tekjuskatt einstaklinga um 35% og fyrirtækja um annað eins, hvort tveggja að frádreginni verðbólgu.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í tekjuskatti. Fjármálaráðuneytið gerir sjálft ráð fyrir 35% hækkun milli ára, en rök hafa verið færð að tölunni 45% sem líklegri niðurstöðu. Tekjuskattur ársins verður þá tæplega 8,7 milljarðar í stað tæplega 5,9 milljarða að óbreyttu.

Þetta spáir ekki góðu um virðisaukaskattinn, sem verður næsta aðferð ríkisstjórnarinnar við að ná meiri peningum út úr þjóðfélaginu. Við munum þá heyra enn á ný sömu, gömlu og innihaldslausu rökin um, að æskilegt sé að einfalda skattkerfið og bæta það.

Skattanefnd samstarfsráðs verzlunarinnar hefur spáð, að ríkissjóður muni á árinu auka herfang sitt um sem svarar 2,3% landsframleiðslunnar. Það þýðir heildaraukningu skattbyrðar um 5,7 milljarða. Á hverja fjögurra manna fjölskyldu er aukningin 90.000 krónur.

Í skattheimtu heldur núverandi ríkisstjórn áfram stefnu fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Innganga Alþýðuflokksins í stjórnarsamstarfið í fyrrasumar hefur engin áhrif haft til bóta, þótt flokkurinn hafi fengið embætti fjármálaráðherra.

Ef litið er þrjú ár til baka og rakinn skattheimtuferillinn frá 1985 til 1988, kemur í ljós, að ríkið tekur nú 15 milljörðum meira umfram verðbólgu en það gerði þá. Þetta eru 230.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ekki er furða, þótt fólk kveinki sér.

Árum saman hefur í leiðurum þessa blaðs verið varað við hverri skattkerfisbreytingunni á fætur annarri. Blaðið hefur reynzt sannspátt um, að hver einasta breyting hefur verið notuð til að ná til ríkisins meiri hluta af þeim verðmætum, sem þjóðin hefur til skiptanna.

Þegar fjármálaráðherra fer í haust að sverja fyrir annarleg sjónarmið að baki virðisaukaskattinum, skulum við muna, hver reynslan hefur hingað til verið.

Jónas Kristjánsson

DV